Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 18:13:26 (2381)

1999-12-06 18:13:26# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[18:13]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Fljótsdalsvirkjun er nú ekki á dagskrá hér. Þær lagareglur eru í gildi á Íslandi í dag að menn eigi ekki að taka endanlega ákvörðun um að styðja eða styðja ekki framkvæmdir fyrr en að fengnu umhverfismati. Þetta eru þau lög sem gilda í landinu. Við samfylkingarmenn viljum einfaldlega að alþingismenn beiti sér fyrir því að þeim lögum sé fylgt.

Virðulegi forseti Við skulum telja upp höfuðatriði þessa frv. Það er að flytja Byggðastofnun frá forsrh. til iðnrh. Er það til að styrkja stofnunina? Í stað þess að kosin verði þverpólitísk nefnd á Alþingi til að stjórna stofnuninni, spegilmynd af styrk flokka hér á Alþingi, þá skipi iðnrh. hana einn. Er það til að styrkja stofnunina?

Gert er ráð fyrir því að heimild Byggðastofnunar til að vinna byggðaþróunaráætlun verði tekin af henni. Hún verði sett í hendurnar á iðnrh. og hann eigi síðan að hafa samráð við Byggðastofnun og önnur ráðuneyti um vinnu að þessum málum. Er það til að styrkja stofnunina? Gert er ráð fyrir að fella út öll ákvæði gildandi laga um heimild stofnunarinnar til að grípa til sértækra aðgerða til að bregðast við aðkallandi vanda. Er það til að styrkja hana?

Virðulegi forseti. Ég er ekki að segja að ekki sé eitt og annað í þessu lagafrv. sem bætt geti stöðu Byggðastofnunar frá því sem er. En ég tel ekkert af meginatriðum frv., sem ég hef talið hér upp, vera til þess fallið að styrkja hana. Ég skil ekki hvers vegna sjálfstæðismenn ganga fram fyrir skjöldu til að verja það að þýðingarmikil stofnun af þessu tagi sé tekin úr höndunum á þeim og færð Framsfl. Ég skil ekki hvernig stendur á því og framsóknarmennirnir sjálfir mæta ekki einu sinni til að halda uppi rökum fyrir þeirri breytingu.