Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 18:38:52 (2390)

1999-12-06 18:38:52# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[18:38]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki sé ágreiningur um það að fjölbreytni í atvinnulífi er afskaplega mikilvæg. Um það snýst málið og það hefur komið fram ítrekað að það er meginmarkmiðið, þ.e. að efla fjölbreytni í atvinnulífi, ekki bara úti á landsbyggðinni heldur í landinu í heild. (Gripið fram í.) Fjölbreytni í atvinnulífi er það sem máli skiptir og að sækja fram á sem flestum sviðum til þess m.a. að draga úr sveiflum í atvinnulífi.

Það er líka vert að árétta það sem fram hefur komið ítrekað í umræðunni, að frv. byggir m.a. á tillögum frá Ríkisendurskoðun. Það kom fram í ræðu hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar að við undirbúning þessa máls hlaut hugmyndin stuðning atvinnuráðgjafa og þeirra sem hafa verið að vinna með nýsköpun, ekki síst úti á landsbyggðinni.