Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 18:58:18 (2396)

1999-12-06 18:58:18# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[18:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans varðandi stöðu þessa máls gagnvart reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Það liggur skýrt fyrir eftir yfirferð hæstv. forsrh. að hér er um flutning á málaflokknum og málaflokkunum sem slíkum að ræða. Ég er sammála því að heppilegra sé að gera slíkt með lagabreytingu en láta ekki reyna á þanþol heimildar til að skipta verkum með breytingum á reglugerð um Stjórnarráð Íslands.

Ljóst er og við getum öll tekið undir það að glíman við byggðaröskunina undanfarin ár hefur verið erfið, jafnvel erfiðari en að taka próf í þýsku. Þó að einkunn sú sem hæstv. forsrh. er hér stundum gefin sé heldur slök, neðarlega á skalanum, þá er ekki þar með sagt að við viðurkennum ekki að hæstv. ráðherra sé nokkur vorkunn og sömuleiðis Byggðastofnun. Ég held að sé allrar sanngirni gætt þá geti menn ekki bara skellt skuldinni á slíka aðila og sagt að það sé þeim alfarið að kenna að öllu hafi ekki verið snúið til betri vegar. Menn þekkja og vita að við ramman reip er að draga.

Hitt er ljóst að menn leggja ákveðið mat á frammistöðuna og viðleitnina. Hún hefur sannarlega, því miður, ekki skilað miklum árangri.

Rétt er einnig að það mun ekki algengt að byggðamál heyri undir forsrn. Nánast alls staðar eru forsrn. hrein yfirráðuneyti og hafa ekki framkvæmdarvaldshlutverk með höndum í neinum mæli. Ég hef einmitt gagnrýnt það að á köflum hafi menn lent of mikið í því hér að forsrn. hafi verið blandað inn í framkvæmdarmál sem er ekki heppilegt. Enn skortir mig rökin fyrir því að heppilegt sé að vista þennan málaflokk hjá iðnrn. Jafnvel þó að til yrði atvinnuvegaráðuneyti með sameiningu atvinnuráðuneytanna er ég ekki heldur sannfærður um að byggðamál eigi að vera þar. Þau eru annað og meira en bara atvinnumál.