Byggðastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 19:01:12 (2398)

1999-12-06 19:01:12# 125. lþ. 36.8 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[19:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þá erum við hæstv. forsrh. einfaldlega ósammála um það. Ég hef nefnt félmrn. sem fyrsta kost og með þeim rökum að undir félmrn. heyri málefni sveitarfélaganna og sveitarstjórnarmál og það lægi að ýmsu leyti vel við að styrkja þá stöðu félmrn. sem ráðuneytis þess málaflokks og í raun þá að nokkru leyti sem ígildi innanríkisráðuneytis.

Mér kæmu einnig fyrr í hug önnur atvinnuvegaráðuneyti meðan þau eru aðskilin en iðnrn. Ef við lítum á byggðamálin og byggðavandann að stærstum hluta til hvað þolendurna snertir sem vandamál dreifbýlisins og landsbyggðarinnar, þá eru bæði sjútvrn. og landbrn. fyrirferðarmeiri í raun og veru sem afgerandi fagráðuneyti þeirra atvinnugreina sem skipta sköpum á þeim svæðum en iðnrn. fer frekar með hina stóru iðnaðarkosti og almennan iðnað sem ekki er uppistaðan í atvinnulífi þeirra svæða sem eiga mest undir högg að sækja. Ef menn líta til atvinnuvegaráðuneytis, þá gæti ég mjög vel rökstutt önnur ráðuneyti en iðnrn. fyrr þó ég teldi heppilegra að horfa t.d. til félmrn. ef menn endilega vilja koma þessu frá forsrn. með þeim rökum sem ég sagði áðan um málefni sveitarfélaganna o.s.frv.

Það mætti jafnvel velta fyrir sér hvort umhvrn. sem menn völdu að færa skipulags- og byggingarlög undir gæti ekki alveg eins komið til greina sem samræmingaraðili þessa málaflokks eins og iðnrn. Ég verð að segja ósköp einfaldlega með fullri virðingu fyrir því ágæta ráðuneyti, iðn.- og viðskrn. sem nú er orðið samtvinnað, að mér finnst það ekkert sjálfgefið að færa málaflokkinn þangað og áskil mér allan rétt til þess að hafa á því skoðun framvegis og beita mér jafnvel fyrir því að þetta fyrirkomulag verði ekki endilega til frambúðar.