Póst- og fjarskiptastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 19:04:06 (2400)

1999-12-06 19:04:06# 125. lþ. 36.9 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[19:04]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til nýrra laga um Póst- og fjarskiptastofnun sem er á þskj. 292. Frv. er lagt fram sem fylgifrv. með frv. til laga um fjarskipti sem ég mælti fyrir á Alþingi 11. nóvember sl.

Póst- og fjarskiptastofnun hóf starfsemi sína 1. apríl 1997 og tók þá við almennu stjórnsýsluhlutverki á sviði fjarskipta og póstmála. Viðamiklar breytingar á fyrirkomulagi þessara mála, ekki síst afnám einkaréttar á sviði fjarskipta, leiddu til þess að nauðsynlegt var að koma á fót sjálfstæðri eftirlitsstofnun á þessu sviði. Verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar voru áður ýmist hjá samgrn., Póst- og símamálastofnun eða fjarskiptaeftirliti ríkisins.

Eins og ég fjallaði um í framsöguræðu minni með frv. til laga um fjarskipti er orðið nauðsynlegt að breyta þeim þó aðeins séu liðin tæp þrjú ár frá setningu laganna. Fyrir því eru ýmsar ástæður og nefndi ég þá t.d. miklar breytingar á fjarskiptatækni og fjarskiptaþjónustu. Á sama hátt má segja að sú reynsla sem fengin er af fjarskiptamarkaðnum í kjölfar samkeppninnar kalli á breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun fyrst og fremst í þeim tilgangi að styrkja stofnunina til að takast á við breytt fjarskiptalög og nýtt viðskiptaumhverfi.

Með hinu nýja frv. til fjarskiptalaga eru lagðar til miklar breytingar á möguleikum fyrirtækja til að starfa á fjarskiptamarkaðnum, t.d. með því að aðgangur fjarskiptafyrirtækja að heimtaug einstakra notenda verður nú mögulegur. Einnig er gert ráð fyrir því að rekstrarleyfishafar á sviði farsímaþjónustu geti í sérstökum tilvikum krafist íhlutunar Póst- og fjarskiptastofnunar við gerð reikisamninga á milli fyrirtækja. Jafnframt gera lögin ráð fyrir umfangsmikilli þátttöku stofnunarinnar í úrlausn deilumála um samtengingu og opinn aðgang að netum.

Þessu til viðbótar má nefna að stofnuninni er ætlað veigamikið hlutverk við framkvæmd reglna um alþjónustu og sértæka fjarskiptaþjónustu og númeramál.

Þessi þrjú mál, opinn aðgangur að netum, samtenging og alþjónusta, eru helstu viðfangsefni Póst- og fjarskiptastofnunar. Jafnframt eru opinn netaðgangur og samtenging þeir málaflokkar sem valda flestum deilum á milli samkeppnisaðila. Er lausn þeirra og ákvarðanir þar að lútandi ört vaxandi þáttur í starfi stofnunarinnar, enda er fjöldi fyrirtækja sem bjóða fjarskiptaþjónustu þegar orðinn meiri en reiknað var með.

Nefna má aðra þætti í starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar eins og tíðnimál sem eru vaxandi að umfangi og markaðseftirlit með þráðlausum búnaði og notendabúnaður sem mun að ákveðnu marki breyta gildandi reglum um innflutning og sölu fjarskiptabúnaðar.

Í frv. er leitast við að skerpa á úrræðum stofnunarinnar til að afla upplýsinga frá einstökum póst- og fjarskiptafyrirtækjum á markaðinum í heild hvort heldur það eru upplýsingar í sambandi við einstök mál eða tölfræðilegar upplýsingar um markaðinn. Að mínu mati eru eftirtaldar breytingar nauðsynlegar til að Póst- og fjarskiptastofnun geti rækt hlutverk sitt samkvæmt frv. til nýrra fjarskiptalaga. Í fyrsta lagi eru viðfangsefni Póst- og fjarskiptastofnunar mjög sérstaks eðlis vegna sérstöðu fjarskipta og þeirrar staðreyndar að langstærsti hluti almenna fjarskiptanetsins er í höndum eins aðila. Það er því nauðsynlegt að styrkja stofnunina og auka við þau úrræði sem hún getur gripið til við úrlausn mála.

Í öðru lagi tel ég nauðsynlegt að stofnunin fái heimild til að taka ákvarðanir til bráðabirgða þegar aðstæður krefjast þess og dráttur á niðurstöðu máls er til þess fallinn að valda verulegu fjártjóni.

Í þriðja lagi tel ég nauðsynlegt að vinna gegn óvissu um valdmörk á milli Póst- og fjarskiptastofnunar og samkeppnisyfirvalda. Í því sambandi vil ég taka sérstaklega fram að frv. er ekki ætlað að ganga inn á verksvið samkeppnisyfirvalda og samkeppnisyfirvöld munu að sjálfsögðu hafa eftirlit með fyrirtækjum á fjarskipta- og póstmarkaði á grundvelli samkeppnislaga hér eftir sem hingað til. Þetta atriði er sérstaklega áréttað í greinargerð með frv. Í frv. sjálfu eru ákvæði um að þessar tvær stofnanir setji sameiginlega leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem geta bæði fallið innan marka laga um póst- og fjarskiptamál og samkeppnislaga. Þessi tillaga er unnin í samráði og samvinnu mín og iðn.- og viðskrh. og er nauðsynlegt að taka það sérstaklega fram.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. Eins og ég hef getið um er það nátengt frv. um fjarskipti sem er til meðferðar í samgn. um þessar mundir.

Að lokinni þessari umræðu geri ég það að tillögu minni að málinu verði vísað til hv. samgn.