Póst- og fjarskiptastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 19:10:18 (2401)

1999-12-06 19:10:18# 125. lþ. 36.9 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[19:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kom inn á það og réttilega að eitt af því sem markaði starfsaðstæður Póst- og fjarskiptastofnunarinnar og gerði þær aðstæður sérstakar væri sú staðreynd að einn aðili í samkeppni hefði yfir að ráða yfirgnæfandi aðstöðu hvað varðar grunnfjarskiptanetið, þ.e. Landssíminn sem hefur yfir þeim samböndum að ráða, ljósleiðurum og örbylgjusamböndum. Þetta og sú staðreynd að menn eru að fikra sig áfram í átt til aukinnar samkeppni á þessu sviði kallar auðvitað á það að niðurstaða fáist í sjálft grundvallaratriði þessa máls og það er með hvaða hætti ætla menn sér í þessu nýja umhverfi að fara með þetta mál, þ.e. með eignarhald og forræði yfir grunnnetinu.

Ég spái því, herra forseti, að það muni baka mönnum ómæld vandræði og leiða til endalausra árekstra svo lengi sem menn ekki aðskilja þetta á skýran hátt og ganga frá því að ríkið sem eigandi og ábyrgðaraðili grunnnetsins tryggi öllum jafnan aðgang að því. Ég held að allar aðrar leiðir séu ófærar. Ef menn vilja fara út á þá braut, sem menn reyndar þegar eru lagðir af stað út á, að opna þetta fyrir samkeppni og þar erum við að sjálfsögðu einnig samningsbundin af ýmsum ákvæðum, en ég tala nú ekki um ef það er einnig hugur hæstv. ráðherra sem ég hef grun um og rekur minni til að hæstv. ráðherra hafi gefið yfirlýsingar um, að hraða síðan einkavæðingu Landssímans. Þess þá heldur verður að fást botn í það hvernig menn ætla að hafa þetta til frambúðar. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann getur veitt einhverjar upplýsingar um það hér. Er vinna í gangi hvað þetta snertir? Eða er Alþingi ætlað eins og í fleiri tilvikum, t.d. bankafrv., að afgreiða hér heimildir og vinna með lagafrv. af þessu tagi blankó hvað það varðar að vita eitthvað um framtíðina í þessum efnum?