Póst- og fjarskiptastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 19:12:37 (2402)

1999-12-06 19:12:37# 125. lþ. 36.9 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[19:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög gott að þessi spurning komi fram frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þó að hún snúi ekki beint að frv. út af fyrir sig að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun gangi í milli ef ágreiningur og deilur koma upp.

Breytingin sem felst í nýja frv. um fjarskipti gengur út á að tryggja öðrum aðgang að kerfum hjá einstökum símafélögum, alveg sama hver á, hvort það er ríkið sem á grunnnetið eða einstök net sem rekin eru eða einkafyrirtæki. Það er hinn rauði þráður sem gengur í gegnum fjarskiptalagafrv. að tryggja samkeppni, tryggja aðgang að öllum netkerfunum og það er aðalatriði málsins til þess að hægt sé að koma á raunverulegri samkeppni.

Menn óttast sumir og einkum þeir sem hafa tröllatrú á ríkisrekstri að nauðsynlegt sé að ríkið reki hið svokallaða grunnkerfi. Það er kannski athyglisvert að um þessar mundir koma miklar athugasemdir, óskir og ábendingar til samgrn. um að þetta grunnkerfi fullnægi ekki kröfum dagsins, fullnægi ekki kröfum þeirra sem eru úti á landi sérstaklega og þurfa á tölvuvinnslu að halda. Það hlýtur að vekja upp spurningar um það hvers virði í raun og veru þetta kerfi er óendurbætt. Það tel ég að sé mikilvægasta verkefnið og eigi að vera sameiginlegt verkefni okkar þingmanna um þessar mundir að ganga þannig frá málum að við uppfyllum kröfur dagsins um getu þessa grunnkerfis til að sinna slíkri þjónustu.