Póst- og fjarskiptastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 19:14:59 (2403)

1999-12-06 19:14:59# 125. lþ. 36.9 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[19:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það er eitt allra brýnasta og stærsta mál t.d. fyrir dreifbýlið og strjálbýlið í landinu að gert verði stórátak í þeim efnum. En guð minn almáttugur hjálpi mér. Heldur hæstv. ráðherra að einkaaðilar verði aðalhjálpræðið í því t.d. að bæta flutningsgetuna til Broddanesskóla á Ströndum þannig að hann geti fengið stuðning í formi fjarkennslu frá Akureyri? Það verður ekki þannig. Það verður á grundvelli þess að byggja upp sameiginlegt net sem nær yfir landið allt og það munu ekki aðrir gera ótilneyddir en hið opinbera. Það getur vel verið að menn með flókinni lagasetningu og regluverki um alþjónustu og um aðgengi allra að netum hver sem á þau og reikisamningum og öllu þessu fíniríi nái þarna einhverjum árangri, en ég óttast að það verði mjög torsótt leið ef menn ekki fara þá leið eins og menn ræða t.d. núna þegar vangaveltur eru uppi um breytingar í orkukerfinu, að aðskilja grundvallardreifimannvirkin og reka þau sérstaklega. Síðan geti menn keppt um sölu, flutning og þjónustu á því sameiginlega neti með svipuðum hætti og menn keppa á þjóðvegunum um flutninga á einu þjóðvegakerfi sem það opinbera á og rekur. Ég nenni ekki að ræða þetta á þeim forsendum að þetta sé spurning um einhver heimsviðhorf um ríkisrekstur eða einkarekstur. Þetta er praktískt úrlausnarefni fyrst og fremst í mínum huga þó að ég geti alveg tekið hugmyndafræðiumræðurispu við hæstv. ráðherra við tækifæri. Þetta snýst um það hvernig við gerum þetta best við okkar íslensku aðstæður og reynum að rífa okkur upp úr því að vera að pexa um þetta eitthvað pólitískt og horfum á veruleikann eins og hann er. Hvernig verður þetta skást gert? Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til að huga vandlega að því að gera þennan aðskilnað ef á að halda áfram að einkavæða Landssímann því að það mun aldrei verða annað en ófriður um að einn samkeppnisaðili af mörgum í fjarskiptasþjónustu eigi þetta net og síðan verður eitthvert flókið reglugerðarverk sem tryggir öðrum aðgang að því o.s.frv.