Póst- og fjarskiptastofnun

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 19:17:15 (2404)

1999-12-06 19:17:15# 125. lþ. 36.9 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[19:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að vekja athygli hv. þm. á því, vegna andsvars hans, að grunnnetið er í eigu ríkisins í dag. Það uppfyllir ekki þær óskir og kröfur sem markaðurinn gerir til þess þrátt fyrir að ríkið eigi það algerlega. Það er vandinn sem blasir við okkur núna.

Fjarskiptalagafrv. gerir ráð fyrir því að alþjónustan feli í sér kröfu um hátt þjónustustig, að tölvuvæðingin geti orðið um allt land. Þess vegna er inni í fjarskiptalagafrv. krafa um ISDN-þjónustu eða ígildi þeirrar tækni á öll byggð ból. Við stöndum frammi fyrir því að vinna sameiginlega að því mikilvæga verkefni.

Ég sagði í umræðunni um fjarskiptalagafrv. að eðlilegt væri að menn veltu fyrir sér hvernig við tryggðum þetta best, ekki síst í beinu framhaldi af byggðaumræðunni áðan. Hvernig tryggjum við að þessi þjónusta sé um allt land? Gerum við það með því að slíta grunnkerfið frá tæknibúnaðinum sem er í símstöðvunum og þekkingunni sem er hjá fólkinu? Það er verið að einkavæða þessi fyrirtæki út um allar jarðir í Evrópu og ekkert ríki hefur valið þann kost að slíta grunnnetið frá tölvu- og tæknibúnaðinum hjá fyrirtækjunum. Þetta ætti að vera okkur Íslendingum til umhugsunar áður en við hugleiðum þann kost að ríkisreka koparinn og ljósleiðarann áfram einir þjóða.