Ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 13:32:46 (2406)

1999-12-07 13:32:46# 125. lþ. 37.91 fundur 192#B ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[13:32]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Í morgun var í iðnn. tekið fyrir erindi mitt þar sem farið er fram á að iðnn. kalli til sín fulltrúa frá Norsk Hydro vegna umfjöllunar nefndarinnar um áframhaldandi framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun. Í stuttu máli sagt, virðulegi forseti, felldi stjórnarmeirihlutinn þessa tillögu. Ég tel að við í minni hlutanum höfum verið beitt miklu ofbeldi og harðræði af hálfu stjórnarmeirihlutans í nefndinni og ég vil benda þinginu á eftirfarandi:

Ég hef heyrt, þó að ég hafi ekki langa þingreynslu, að það sé einsdæmi að mönnum sé neitað um að kvaddir séu til menn eða sérfræðingar inn í nefndir. Það er fordæmi fyrir því að kvaddir hafi verið til erlendir aðilar inn í nefndir vegna fyrri framkvæmda við uppbyggingu á álbræðslum. Þetta erindi átti sérstaklega erindi til nefndarinnar í ljósi þess að nú hefur umhvn. skilað af sér áliti þar sem fram kemur að fimm af sjö fulltrúum nefndarinnar eru hlynntir því að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt umhverfismat. Þess vegna er það óskiljanlegt af minni hálfu að stjórnarmeirihluti í iðnn. skuli ekki verða við þeirri sjálfsögðu kröfu í ljósi nýrra aðstæðna, í ljósi niðurstöðu þeirrar sem komin er fram í umhvn., að kalla til þá aðila sem hafa sýnt málinu áhuga á hinun endanum, þ.e. Norsk Hydro, og fá álit þeirra beint inn í nefndina til þess að við getum fjallað um þetta á hlutlausum grunni og í framhaldi af afgerandi og afdráttarlausu áliti umhvn. um að verkefnið skuli fara í lögformlegt umhverfismat.

Virðulegi forseti. Ég krefst þess að iðnn. endurskoði afstöðu sína og í ljósi umfjöllunar umhvn. verði fulltrúar Norsk Hydro boðaðir á iðnaðarnefndarfund ekki seinna en nk. föstudag.