Ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 13:34:41 (2407)

1999-12-07 13:34:41# 125. lþ. 37.91 fundur 192#B ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[13:34]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Af þessu gefna tilefni er rétt að rifja það upp að þegar hv. iðnn. tók þetta mál formlega til vinnslu var lögð upp áætlun um málsmeðferðina og ég rifja það upp enn einu sinni að engar athugasemdir voru gerðar um þá málsmeðferð. Á þeim fundi nefndarinnar kom jafnframt fram beiðni um gesti sem hv. nefndarmenn vildu kalla til nefndarinnar og orðið hefur verið við beiðni um að kalla alla þá gesti til nefndarinnar.

Það er síðan í morgun sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson óskar eftir því, með stuðningi hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að fulltrúar Norsk Hydro verði kallaðir til nefndarinnar. Við teljum að forsendur hafi ekki breyst. Það liggur í fyrsta lagi fyrir skrifleg yfirlýsing frá því í júní sl., undirrituð á Hallormsstað, þar sem samkomulag er um að stefna að því að ef samkomulag náist, þá þurfi það að liggja fyrir um áramót. Að öðrum kosti sé málið í uppnámi og í óvissu.

Herra forseti. Sú forsenda hefur ekkert breyst og ég tel þess vegna afskaplega óheppilegt og í rauninni ekki sæmandi að fara bónleið til Norðmanna í störfum þingnefndar.

Af því að hv. þm. talaði um ofbeldi, þá er það nú einu sinni þannig, herra forseti, að lýðræðið byggir á því að tekin er afstaða og þarna voru afdráttarlaust sex gegn þremur. Sex nefndarmenn höfnuðu þessari beiðni. Þetta eru eðlileg málslok í lýðræði sem eiga ekkert skylt við ofbeldi.