Ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 13:41:19 (2410)

1999-12-07 13:41:19# 125. lþ. 37.91 fundur 192#B ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er í fyrsta lagi alveg ósæmilegt hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að láta líta svo út að um meðferð þessara mála hér í þinginu sem ríkisstjórnin hefur ákveðið úti í bæ, ríki eitthvert samkomulag. Í öðru lagi er staðan gjörbreytt vegna yfirlýsinga og misvísandi yfirlýsinga Norsk Hydro sem fram hafa komið frá því að málin hófu göngu sína í þinginu. Í þriðja lagi, herra forseti, harma ég þessi vinnubrögð forustumanna stjórnarliðsins og ég tel þau ákaflega óskynsamleg. Öll þjóðin hefur horft upp á það að Norsk Hydro, sem borið hefur verið fyrir því að ekki væri tími til að fara í lögformlegt umhverfismat, hefur svarað öðruvísi og svo í ákaflega vandræðalegri (Forseti hringir.) yfirlýsingu númer tvö ...

(Forseti (HBl): Ég vek athygli hv. þm. á að þetta eru ekki efnislegar umræður heldur um störf þingsins.)

Ég er að rökstyðja það, herra forseti, að það hafi verið óskynsamlegt af formanni iðnn. að hafna þeirri beiðni sem fram var sett í nefndinni í morgun um að kalla tiltekna aðila til viðtals við nefndina. Og ef það er ekki um störf þingsins, þá veit (Forseti hringir.) ég ekki hvað eru störf þingsins.

(Forseti (HBl): Forseti sá ástæðu til þess að minna hv. þm. á að halda sig við þingsköp.)

Herra forseti. Mér leiðist þessi bjöllugangur að ástæðulausu fyrir aftan mig þegar ég er í ræðustól. (Forseti hringir.) Það er hægt að áminna mig, herra forseti, þegar ég hef lokið mínum tveimur mínútum ef ég hef farið út fyrir efnið. En ég óska eftir því að forseti bíði þangað til.

(Forseti (HBl): Ég áminni hv. þm. um að gæta hófsemi í orðum.)

Segjum tveir.

Herra forseti. Ég tel það mjög óskynsamlega niðurstöðu af hálfu formanns iðnn. að hafna þessari réttmætu og rökstuddu ósk og mér er til efs að nokkur dæmi finnist í þingsögunni um það að í tvígang hafi ekki verið hægt að verða við óskum um að gestir kæmu til þingnefndar. Ég bið menn að nefna dæmin og ég bið menn að rökstyðja það að Norsk Hydro sé ekki aðili að þessu máli með þeim hætti að eðlilegt sé að kalla þá þarna fyrir. En út af fyrir sig held ég að þessi málsmeðferð, þetta ofbeldi, sé stjórnarsinnum sjálfum verst (Forseti hringir.) og þeir mega svo sem skjóta undan sér lappirnar mín vegna, herra forseti.