Ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 13:45:23 (2412)

1999-12-07 13:45:23# 125. lþ. 37.91 fundur 192#B ósk um viðræður við fulltrúa Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), VS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Með fullri virðingu fyrir frændum okkar Norðmönnum þá finnst mér hv. þingmenn gera þeim heldur hátt undir höfði ætli þeir að biðja Norðmenn að taka afstöðu fyrir okkur í þessu máli, eins og mér virðist á þessari beiðni. Mér finnst athyglisvert að beiðnin komi frá fulltrúa vinstri grænna á hv. Alþingi sem helst vilja ekki hafa mikil samskipti (SJS: Forseti, er þetta ekki örugglega um störf þingsins?) og samstarf við aðrar þjóðir. Það er verið að kalla eftir yfirþjóðlegu valdi í þessu máli. (SJS: ... um fundarstjórn hérna.)

Hv. 3. þm. Norðurl. e. er eitthvað taugaóstyrkur. Ég skil það í sjálfu sér vel þar sem hann er formaður þess stjórnmálaflokks sem hefur frumkvæði að því að leggja fram þessa ósk. Að mínu mati er hún ekki vel rökstudd vegna þess að þetta fyrirtæki er ekki aðili að virkjuninni. (Gripið fram í.)

Ég ætla að endurtaka það, hæstv. forseti, að Norsk Hydro er ekki aðili að virkjunarframkvæmdunum. Þar af leiðandi er í meira lagi óviðeigandi að fá fulltrúa slíks fyrirtækis til viðræðu við iðnn. út af virkjunarframkvæmdum. Mér finnst það sýna geysilega mikið hugmyndaflug hjá hv. þingmönnum í nefndinni að setja þessa ósk fram en ég er ákaflega þakklát fyrir að meiri hlutinn skuli ekki hafa samþykkt hana. Ég hefði ekki getað sætt mig við að biðja Norðmenn að taka afstöðu fyrir hönd Íslendinga.