Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:03:40 (2417)

1999-12-07 14:03:40# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Efnislegar eða hugmyndafræðilegar umræður um íslenska velferðarkerfið eru fátíðar. Það er von mín að sú bók sem Tryggingastofnun lét vinna, Íslenska leiðin, hvetji til umræðna um framtíðina á grundvelli þeirrar úttektar á fortíðinni sem er að finna í bókinni. Umræða um þessi viðkvæmu mál þarf að vera á grundvelli staðreynda en ekki upphrópana eins og oftsinnis gerist.

Helstu niðurstöður í þessari samantekt Stefáns Ólafssonar koma síður en svo á óvart. Lokaorð bókarinnar eru að Íslendingar komi mjög vel út úr öllum samanburði á lífskjörum og lífsgæðum, bæði gagnvart hinum Norðurlöndunum og öðrum vestrænum þjóðum.

Ísland hefur alltaf haft sérstöðu hvað varðar útgjöld og uppbyggingu velferðarkerfisins. Þetta er undirstrikað í bókinni. Það hefur legið ljóst fyrir að velferðarkerfið þjónar ekki öllum hópum jafn vel. Vandi tiltekinna sérstakra hópa er vandi íslenska velferðarkerfisins og við verðum að hafa þroska til að viðurkenna það.

Ég minni á í þessu sambandi að á fjölmörgum fundum sem haldnir voru á vegum árs aldraðra um landið hef ég jafnan vísað á bug almennum kröfum sumra talsmanna aldraðra sem felast í því að hækka grunnlífeyri fyrir alla. Skýrslan sýnir einmitt að almennt nær almannatryggingakerfið tilgangi sínum vel en þjóðfélagið verður að sameinast um að bæta stöðu afmarkaðra hópa sem verst eru á vegi staddir.

Almennar hækkanir leysa ekki vanda þessa tiltekna hóps sem velferðarkerfið nær ekki nógu vel til. Það þarf sérstakar ráðstafanir. Ég hef lagt höfuðáherslu á að bæta mest kjör þeirra hópa sem standa höllum fæti. Í skýrslunni eru nýjustu tölur frá 1997 eins og eðlilegt er en síðan hefur margt gerst, einmitt til að koma til móts við þessa hópa. Í ársbyrjun var frítekjumark tekjutryggingar hækkað verulega. Vasapeningar vistmanna voru hækkaðir um 35%. Öryrkjar sem búa með börnum sínum eiga nú rétt á heimilisuppbót. Bætur voru sérstaklega hækkaðar í apríl. Staða foreldra langveikra barna hefur verið bætt, fæðingarorlof aukið, endurhæfing öryrkja stóraukin sem og vinnusamningar og svona mætti áfram telja.

Niðurstaða alþjóðastofnana er sú að Íslendingar séu í tiltölulega góðri stöðu hvað varðar þau vandamál velferðarkerfisins sem íþyngja flestum vestrænum þjóðum nú þegar, og svigrúmið til að bregðast við fjölgun aldraðra á næstu áratugum er miklu meira hér en annars staðar. Þetta er staðfest í Íslensku leiðinni.

Virðulegi forseti. Fjármögnun og uppbygging íslenska velferðarkerfisins er öðruvísi en annars staðar á Norðurlöndum. Meginniðurstaða Stefáns Ólafssonar þegar hann ber saman kjör aldraðra á Norðurlöndum er t.d. sú að lífskjör eldri borgara á Íslandi séu fyllilega sambærileg við það sem best gerist annars staðar á Norðurlöndum, eða eins og segir í Íslensku leiðinni, að ráðstöfunartekjur para í hópi eftirlaunafólks eru hæstar á Íslandi. Þetta er ekki slæm einkunn.

Í þessu sambandi langar mig til að benda á að í kjölfar aðalfundar Tryggingastofnunar urðu einhverjir til þess að stilla saman yfirlýsingum hæstv. forsrh. fyrir kosningar, skýrslunni og túlkun hagsmunaaðila á skýrslunni. Hér var ómaklega vegið að hæstv. forsrh. Engar efnislegar röksemdir er að finna í Íslensku leiðinni sem réttlætir málflutning af þessu tagi. Ég ætlast til að menn leggi flokkspólitíkina niður eða til hliðar og ræði þessi mál á grundvelli staðreynda.

Virðulegi forseti. Fyrir skemmstu heyrði ég viðtal við einn starfsmann kirkjunnar í útvarpi þar sem hann var að uppfræða hlustendur um hve illa hið opinbera stæði sig gagnvart þeim sem höllum fæti standa. Hann tók dæmi um einstæða móður sem mátti sæta bótaskerðingum þegar hún eignaðist barn. Það eru margir mánuðir frá því að þessi eldgamla regla var numin úr gildi. Ég hef ekki heyrt starfsmann kirkjunnar taka aftur ummæli sín. En ég nefni þetta hér til að undirstrika að það þjónar ekki hagsmunum þeirra sem höllum fæti standa að byggja málflutning sinn á missögnum og misskilningi.

Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi beindi til mín þremur spurningum. Í fyrsta lagi er það rangt hjá þingmanninum að íslenska velferðarkerfið standist ekki samanburð við velferðarkerfi hinna Norðurlandanna. Í heildina stenst kerfið fyllilega samanburð eins og sést í lokaorðum bókarinnar að Íslendingar koma mjög vel út úr öllum samanburði á lífskjörum og lífsgæðum, bæði gagnvart öðrum Norðurlandaþjóðum og öðrum vestrænum þjóðum. Til þess að koma Íslendingum í efsta sæti þarf hins vegar að bregðast við ákveðnum vanda afmarkaðra hópa.

Það hefur verið stefna mín og áhersla að á þessu ári var bætt sérstaklega við 1 milljarði kr. í sérstakar aðgerðir. Þessari stefnu mun ég halda. Það er nauðsynlegt að ná samstöðu stjórnmálaflokka um að leggja áhersluna á þá sem verst standa og því til viðbótar að það svigrúm sem sterkir lífeyrissjóðir munu gefa almannatryggingakerfinu á næstu árum verði nýtt sérstaklega til hagsbóta þeim sem eingöngu treysta á almannatryggingakerfið.

Í öðru lagi spurði hv. þm. um tengingu örorkulífeyrisins við tekjur maka. Yfirlýsing skýrslunnar um að fátítt sé að bætur séu skertar vegna tekna maka er líklega of víðtæk. Annars staðar á Norðurlöndum er lífeyrir skertur vegna tekna maka. Í Noregi og öllum Norðurlöndunum er lífeyrir með einhverjum hætti skertur til lífeyrisþega sem eru í sambúð. Í þessu samhengi má reyndar minna á að heimild til að færa persónuafslátt milli maka er einstök fyrir Ísland og sýnir það hversu oft er erfitt að bera saman á milli landa. En í þessu efni hefur fyrsta skrefið verið stigið en megináhersla mín verður sem fyrr að bæta hag þeirra hópa sem lakast standa.

Ég mun ljúka við svarið í seinni ræðu minni.