Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:12:05 (2418)

1999-12-07 14:12:05# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Mikil þörf er á almennri umræðu og þekkingu á almannatryggingakerfinu og því ber að fagna að rannsóknir og kennsla í þeim fræðum fer nú fram við Háskóla Íslands. Í framhaldi af því rannsóknarstarfi kom nýlega út bók eftir dr. Stefán Ólafsson sem ber nafnið Íslenska leiðin, almannatrygging og velferð í fjölþjóðlegum samanburði. Og er hún tilefni umræðnanna í dag.

Niðurstaða úttektar á íslenskum aðstæðum og samanburður við erlendar þjóðir er að mörgu leyti áhyggjuefni og staðfestir með meiri heildarsvip það sem margir þjóðfélagshópar hafa haldið fram hver í sínu lagi að á Íslandi ríki skammarlega mikil fátækt í allri hagsældinni eða hjá um 7% íslensku þjóðarinnar. Lífskjör alls þorra almennings telst vera góður en í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir er fátækt hér meiri og tekjuskipting ójafnari. Við viljum geta borið okkur saman við Norðurlandaþjóðirnar en ekki þær þjóðir sem þekktar eru fyrir mikla misskiptingu auðs og borgaralegra réttinda.

Það eru sérstaklega kjör hinna lægst launuðu og þeirra sem verst standa í íslensku samfélagi nú á dögum sem halda okkur niðri í samanburði við nágrannalönd okkar. Við úttektina kemur í ljós að með starfsemi almannatrygginga og félagslegrar þjónustu eru lífskjör þjóða gerð jafnari en þau væru annars. Það skiptir því miklu máli að almannatryggingakerfið sé það öflugt að greiðslur grunnlífeyris standi undir meðalframfærslukostnaði á hverjum tíma. Grunnlífeyrir hefur ekki hækkað í hlutfalli við launavísitöluna á undanförnum árum og er í engu samhengi við framfærslukostnað einstaklinga og fjölskyldna. Félagsþjónusta sveitarfélaganna hefur eflst á síðasta áratug en fjárhagsstaða margra sveitarfélaga leyfir ekki þann félagslega stuðning sem þörf væri á. Það eru ákveðnar aðstæður sem auka líkurnar á því að lenda í fátækrahópnum. Það er ekki leti og aumingjaskapur, heldur kynferði, aldur, atvinna, fötlun og veikindi og það eru konur sem fylla hóp einstæðra foreldra að mestu. Þetta er fjömennasti hópurinn sem er með ráðstöfunartekjur undir fátæktarmörkum. Þessi hópur á auk þess mjög erfitt með að komast upp úr baslinu og leyfa sér það sem mörgum öðrum þykir sjálfsagt í daglegu lífi. Konur þurfa oftar en karlar að reiða sig alfarið á bætur almannatrygginga og lenda því oftar í lægsta tekjuhópnum.

Staða atvinnulausra er oft mjög alvarleg um langan tíma þar sem erfitt getur reynst að komast aftur út á vinnumarkaðinn eftir að hafa einu sinni misst atvinnuna og atvinnuleysisbætur duga engan veginn fyrir framfærslukostnaði. Hinn íslenski vinnumarkaður er þannig í dag að lægstu launataxtar duga ekki fyrir framfærslu launþeganna hvað þá þegar um stórar fjölskyldur er að ræða.

Staða öryrkja og sjúklinga er í raun smánarblettur á íslenska velferðarkerfinu og hafa þessir hópar ítrekað bent stjórnvöldum á þætti sem halda öryrkjum og sjúklingum undir fátæktarmörkum auk þess sem mikið vantar upp á jafnrétti á við heilbrigða til að taka þátt í lífi og starfi í samfélaginu. Og það eru ekki allir jafnduglegir við að láta heyra frá sér og gera réttlátar kröfur til samfélagsþjónustunnar.

Bændur eru ekki hávær kröfugerðarhópur en samkvæmt upplýsingum og skýrslu Byggðastofnunar er ljóst að um 26% þeirra eru undir fátæktarmörkum. Búgreinarnar standa mjög vel en það er staða sauðfjárbænda sem er hvað alvarlegust. Staða kvenna í bændastétt er í dag ekkert síður erfið en fyrr á tímum. Þær vinna mjög langan vinnudag til að halda uppi framfærslutekjum, vinna oft bæði á og utan búsins en bændur geta ekki sótt með sama hætti og aðrir um atvinnuleysisbætur svo staða margra er því mjög erfið. Alvarlegust og um leið mesti smánarblettur fyrir íslenskt velferðarkerfi er sú staða að margir bændur treysta sér ekki til þess að kosta börn sín til framhaldsnáms eða frekari menntunar eftir grunnskóla. Þetta er staða sem er staðreynd en fer ekki hátt.

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa bók og þá úttekt og samanburð sem fram kemur í henni. Það er bráðnauðsynlegt að hraða endurskoðun á lögum um almannatryggingar og í framhaldi af því lögum um félagslega þjónustu m.a. til að bæta hag þeirra tekjuminnstu.

Herra forseti. Þessi úttekt á velferðarkerfinu ætti að hjálpa okkur til að sníða af vankantana sem augljóslega eru innbyggðir í núverandi kerfi svo við getum staðið jafnfætis frændum okkar á Norðurlöndunum. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum styrkja velferðarkerfið með margvíslegu móti og stuðla að frekara jafnrétti og jöfnuði meðal okkar, sér í lagi með hagsmuni barna okkar að leiðarljósi.