Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:22:27 (2420)

1999-12-07 14:22:27# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), GIG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Gunnar Ingi Gunnarsson:

Herra forseti. Það eru alvarlegar brotalamir á íslenska velferðarkerfinu, eins og hér hefur þegar komið fram.

Bók Stefáns Ólafssonar staðfestir að svo sé enda afhjúpar bókin þær þekktu gloppur í öryggisneti velferðarþjónustunnar sem hafa leitt fjölda Íslendinga í alvarlega fjárhagserfiðleika og jafnvel niðurlægjandi fátækt á undanförnum árum með tilheyrandi tjóni á andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu.

Í bókinni koma meðal annars fram skýringar á því hvers vegna öryrkjar eru yfir 51% þeirra, sem hafa neyðst til að sækja aðstoð Hjálparstofnunar íslensku kirkjunnar fyrir jólin eins og kannanir hafa áður staðfest.

Í þessari umræðu gefst auðvitað ekki tími til að fara nákvæmlega í saumana á því alvarlega máli sem hér er til umfjöllunar en til að gefa háttvirtum þingmönnum raunsanna mynd af augljósum göllum í íslenska velferðarkerfinu ætla ég að leyfa mér að nefna dæmi sem ég tek úr starfi mínu sem læknir.

Fyrra dæmið er um 100% öryrkja sem býr einn og á aðeins þann rétt til lífeyris sem greiddur er úr almannatryggingakerfinu. Þessi öryrki fær greiddar um 68.000 kr. á mánuði sem eru hámarksgreiðslur. Þótt hámarksgreiðslan dugi alls ekki fyrir nauðþurftum er samt tekinn af henni tekjuskattur.

Mánaðarlega borgar öryrkinn um 25.000 kr. í húsaleigu og annan húsnæðiskostnað og eftir heldur hann því um 40.000 kr. á mánuði.

Þessi maður býr augljóslega við fátækt og getur þar ansi litlu um breytt, því þótt hann hefði heilsu til að vinna sér inn aukapening færi viðbótin að meginhluta til í skatta vegna hinna alkunnu tekjutenginga.

Seinna dæmið er um ungan mann, ókvæntan og barnlausan, sem býr í leiguhúsnæði. Þessi ungi maður var nýkominn á vinnumarkaðinn, þegar hann veikist og verður óvinnufær. Hann átti ekki rétt til launa í veikindum og hann hafði heldur ekki eignast rétt í eigin lífeyrissjóði og átti því einungis rétt á sjúkradagpeningum úr almannatryggingakerfinu, en þeir eru nú um 671 kr. á dag eða um 20.800 kr. á mánuði.

Herra forseti. Þessi ungi maður fær þarna aðeins táknræna aðstoð því 20.800 kr. eru auðvitað aðeins brot af því sem hann þarf til framfærslu á mánuði svo hann neyðist til að sækja um framfærslustyrk til sveitarfélagsins og steypa sér í yfirdráttarskuldir í banka. Hver er svo hin fjárhagslega framtíðarsýn þessa unga manns? Hún er því miður dökk ef marka má drög að fjárlögum næsta árs því þar eru dagpeningar hans aðeins hækkaðir um 3--4%.

Auðvitað dettur mér ekki í hug að halda því fram að sú hæstv. ríkisstjórn, sem nú situr, hafi smíðað alla þá ágalla sem enn er að finna í öryggisneti íslenska velferðarkerfisins. En ég fullyrði hins vegar að hæstv. ríkisstjórn hafi lítið sem ekkert gert til að lagfæra það skammarlega óréttlæti sem verður svo hróplegt í góðærinu mikla sem allir eru tala um.

Nú er mikið lagt upp úr því að skila góðum afgangi á fjárlögum næsta árs. Það markmið er í sjálfu sér gott og blessað. En forsendur afgangsins á fjárlögum eru því miður alrangar á meðan ekki er reiknað með lagfæringu á stöðu þeirra lífeyrisþega sem hafa misst af hinu íslenska góðæri. Hjá þeirri leiðréttingu verður ekki komist. Enda getur varla nokkur þjóð leyft sér að flagga hagstæðu bókhaldi, svona út á við, á sama tíma og margir veikustu og minnstu bræður þjóðarheimilisins eru skildir eftir í sárri fátækt

Hér erum við því að tala um algjör forgangsatriði á verkefnalista hv. þingmanna, forgangsatriði sem þola enga bið

Að lokum þetta, herra forseti. Frjálslyndi flokkurinn lýsti þessum ágöllum velferðarkerfisins fyrir rúmu ári og kynnti stefnu sína til úrbóta á þeim. Þingmenn flokksins hafa nú lagt fram fyrstu tillögur sínar til lausnar á hluta þess vanda sem hér hefur verið rætt um og við ætlumst auðvitað til þess að tillögur okkar fái jákvæðar viðtökur hjá hv. þingmönnum og viðunandi afgreiðslu