Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:27:33 (2421)

1999-12-07 14:27:33# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:27]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri skýrslu sem er hér rædd. Ég vil jafnframt fagna þeirri framsýni sem felst í því samstarfi sem Tryggingastofnun ríkisins hefur átt við Háskóla Íslands með þeirri rannsókn sem gerð hefur verið. Það þarf nefnilega talsverðan kjark til þess að þora að skoða þau kerfi sem við höfum búið við og búið til og það er nauðsynlegt að gera úttekt á þeim. Við höfum ekki búið við slíkar hefðir hér á landi en það hafa grannþjóðir okkar gert og þær hafa skoðað kerfi sín reglulega til fjölda ára. Ekki er nægilegt að gera slíka rannsókn einu sinni heldur þarf að fylgja henni eftir. Jafnframt gefur hún tilefni til nýrra rannsókna og skoðunar á einstaka þáttum, svo og skoðun og tengingar við önnur kerfi eins og t.d. félagsþjónustu sveitarfélaga. En sveitarfélögin hafa orðið að mæta því fólki með viðbótarstuðningi sem tryggingakerfið gagnast ekki nema að hluta til til framfærslu.

Tryggingakerfið er auðvitað barn síns tíma og margar breytingar hafa verið gerðar. Það er því erfitt fyrir þann sem þarf að nýta sér kerfið og hina ýmsu bótaflokka þess að átta sig á hvaða möguleikar eru til staðar og hvernig kerfin virka með öðrum þegar komið er að þeim tímapunkti að það þarf að nota þau. Jafnframt er flókið hvernig kerfin virka hvað varðar skattgreiðslur, svo og skerðingu á ýmsum bótum innbyrðis, tengingar við tekjur maka o.s.frv.

Ég er ein af þeim sem hafa unnið mjög lengi með þau lög og reglur sem hér er verið að skoða. Ég hef reynt að miðla upplýsingum um þau fyrir þá sem þurfa á að halda og ég þekki vel þau göt sem eru á kerfinu og þau vandamál sem eru uppi á borði hjá þeim sem eru að reyna að leiðbeina fólki í gegnum þennan frumskóg á hverjum degi. Við þekkjum öll þá umræðu og ábendingar sem verið hafa í deiglunni ár eftir ár. Við þekkjum stöðu stórs hóps öryrkja. Hún er afar slæm og mér dettur stundum í hug hvort það sé innbyggt í kerfið að þeir skuli ekki komast upp fyrir ákveðið mark öðruvísi en bætur skerðist. Þeir skuli ekki hafa meiri tekjur en það lágmark hvað sem það kostar.

Við þekkjum líka stöðu langveikra barna og foreldra þeirra, hvernig fjölskyldur hafa þurft að lifa á fátæktarmörkum við slíkar kringumstæður sem skyldi einmitt ekki vera þegar mikil veikindi steðja að. Það er ekki einungis verið að hugsa um veikindi barnsins heldur er fjölskyldan undirlögð af því að láta enda ná saman. Hvernig eiga manneskjur að eiga afgangsorku til að slást og kljást við kerfið þegar aðstæður eru slíkar?

Allir hér þekkja líka umræðu um stöðu ellilífeyrisþega og tekjutengingar maka. Við þekkjum líka hvernig staða þeirra er sem einungis hafa sjúkradagpeninga sem er þá síðasta hálmstráið eftir að sjúkrasjóði lýkur, af því að hér kom innkall þingmanns áðan þar sem bent var á sjúkrasjóðinn. Staða þeirra er sýnu verst og sýnu verst líka í skýrslunni, þegar fólk er skikkað til að lifa á 20--25 þús. kr. á mánuði og fá síðan andvirði tveggja mjólkurlítra á dag fyrir hvert barn sem er á þeirra framfæri. Af hverju ekki að horfast í augu við þá staðreynd að sjúkradagpeningakerfið er gengið sér til húðar og það þarf að skoða það upp á nýtt?

Ég get því miður ekki klárað ræðu mína en ég vil benda á að allir þingmenn ættu að fá þessa skýrslu senda, bæði í nefndum og persónulega, en því hefðu þingmenn verulega gott af.