Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:34:19 (2423)

1999-12-07 14:34:19# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér hafa margir fagnað þessari skýrslu, Íslensku leiðinni. Ég ætla hins vegar að harma viðbrögð ráðherra ríkisstjórnarinnar, bæði hæstv. heilbrrh. og hæstv. forsrh. sem svaraði gagnrýni á mjög hrokafullan hátt að mínum dómi. Hér talaði forsrh. þjóðar þar sem fjöldi fólks, stórir hópar þurfa að treysta á almannatryggingar og þurfa að leita til hjálparstofnana til viðurværis. Boðskapurinn sem við fengum úr stjórnarherbúðum var þessi: Það á að halda áfram að tala, halda áfram að skoða en það á ekkert að gera.

Hæstv. heilbrrh. sagði að við skyldum halda okkur við staðreyndir og ég skal gera það. Ég skal halda mig t.d. við þá staðreynd sem ríkisstjórnin segir vera helsta vandann sem við stöndum frammi fyrir núna, að binda fjármagn sem er að safnast upp í þjóðfélaginu þannig að þeir sem hafa peninga geti ávaxtað sitt pund á ábyrgan hátt. Þess vegna þurfi að selja þjóðareignir. Þess vegna þurfi að selja ríkisbankana.

Við vitum að þetta eru fráleit efnahagsleg rök, en látum það liggja milli hluta. Spyrjum um hitt: Hvernig hafa þessir fjármunir safnast upp? Hvers vegna eru að verða til digrir sjóðir hjá efnafólki í landinu og hjá verðbréfasjóðum? Það er vegna þess að miklir fjármunir hafa verið fluttir til allan þennan áratug. Þannig hafa peningar verið teknir sem voru ætlaðir fátæku fólki til húsnæðiskaupa, til uppbyggingar verkamannabústaðakerfis. Fólk hefur verið svipt þeim tekjustofnum. Þeir peningar hafa verið settir út á markað og gamla fólkið, aldraðir og öryrkjar hafa líka verið sviptir tekjum.

Staðreynd er að skattleysismörkin hafa verið lækkuð allan þennan áratug. Frítekjumark vegna atvinnutekna hefur hækkað helmingi minna en launavísitala síðan árið 1993 og þannig hefur verið farið með aðrar stærðir í almannatryggingakerfinu, grunnlífeyri og tekjutrygginguna. Frá þessu fólki hafa peningar verið teknir og færðir yfir til efnafólksins. Og að menn leyfi sér að koma núna fram á Alþingi og segja að setja þurfi á fót enn eina nefndina, enn eina skoðunina, því þeir viti ekki hvað eigi að gera. Þetta eru svör sem Alþingi getur ekki sætt sig við. Þetta eru svör sem þjóðin getur ekki sætt sig við. Þetta eru svör sem Íslendingar mega aldrei sætta sig við. Við krefjumst úrbóta þegar í stað.