Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:41:19 (2425)

1999-12-07 14:41:19# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Það sem hlýtur að vera markmið allra stjórnmálaflokka er að öllum íbúum séu tryggð grundvallarréttindi í gegnum almannatryggingakerfi landsmanna. Þessi réttindi eru allvel tryggð hér á landi þó svo alltaf sé hægt að gera betur, eins og hæstv. heilbrrh. hefur sagt og að því er unnið. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að lífeyrir skuli vera tekjutengdur þar sem hér er fyrst og fremst um skyldur þjóðfélagsins að ræða gagnvart þeim sem þurfa á því að halda. Ekki getur falist í því réttlæti að allir fái sömu greiðslurnar án tillits til þess hversu háar upphæðir þeir fá greiddar úr lífeyrissjóðum. Fyrrv. sjómaður eða bóndi hlýtur að hafa meiri þörf fyrir greiðslur frá samfélaginu en t.d. fyrrv. ráðherra eða bankastjóri. Að þessu leyti erum við Íslendingar að mínu mati með réttar áherslur og í kaflanum um velferðarríkisvanda OECD-ríkja kemur fram að Íslendingar séu að mörgu leyti í öfundsverðri stöðu í dag.

Langflest hinna stóru vandamála sem hrjá velferðarríki OECD-ríkjanna eru lítil vandamál hér á landi. Hér á landi er fjölgun aldraðra og fækkun yngri á vinnumarkaði ekki eins mikið vandamál og í mörgum öðrum ríkjum. Að hluta til er þetta vegna þess að hér á landi er lítið atvinnuleysi og lífeyristökualdurinn er mun hærri en tíðkast í nokkru öðru vestrænu landi. Vandinn sem grannríkin standa frammi fyrir er skipulagsvandi lífeyriskerfanna. Íslenska lífeyriskerfið er samsett á þann hátt sem þar er hvað hagstæðast til lengri tíma, þ.e. þriggja þrepa kerfi með stóru hlutverki fyrir söfnunarsjóði við hlið hins opinbera kerfis almennra trygginga. Síðan bætist við þriðja stigið í formi einstaklingsbundins viðbótarlífeyrissparnaðar sem stjórnvöld styðja með skatta\-ívilnunum. Það er ljóst að þetta kerfi mun skila allflestum vinnandi mönnum góðum lífeyri þegar kerfið hefur náð fullum þroska, þ.e. eftir 10--15 ár. En spurningin er: Getum við lyft hinu svokallaða öryggisneti samfélagsins.

Þeir sem fyrst og fremst hafa lífeyri almannatrygginga til að lifa af búa við þröngan kost. Þetta er vitað. Það er hins vegar rangt sem kom fram hjá frummælanda að við Íslendingar höfum dregist verulega aftur úr í samanburði við aðrar þjóðir. Það kemur bókstaflega fram í skýrslunni að við Íslendingar séum að mörgu leyti í öfundsveðri stöðu í dag. Það þurfi hins vegar að taka á vandamálum sérhópa. Stefán telur að þetta sé ekki stór hluti þjóðarinnar og allar líkur eru á að um það ríki nokkuð góð sátt í þjóðfélaginu að bæta þjónustu við aldraða og taka á málum er varða ellilífeyri, örorkulífeyri og sjúkrapeninga.