Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:58:00 (2430)

1999-12-07 14:58:00# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:58]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram. Við berum okkur gjarnan saman við Norðurlandaþjóðirnar og við Íslendingar sættum okkur aldrei við annað en að vera í fremstu röð. En þegar við berum okkur saman við aðrar Norðurlandaþjóðir, þá verðum við líka að skoða hvað liggur að baki. Hér hefur komið fram, og það er alveg nauðsynlegt að rifja það upp, að þegar Norðurlandaþjóðir eru að tala um sitt velferðarkerfi, þá er það allt öðruvísi upp byggt. Hér vinnur fólk yfirleitt til sjötugs. Annars staðar á Norðurlöndum hættir fólk að vinna um sextugt. Þetta sparar auðvitað íslenska kerfinu geysilega mikið. Hér á fólk í 90% tilvika sínar húseignir sjálft og þess vegna erum við ekki að borga í húsaleigubætur eins og þjóðirnar í kring. Hér er atvinnuleysi 2%. Hjá nágrannaþjóðunum er það allt upp í 10--14% og þeir eru að borga stórar upphæðir í tengslum við þetta atriði. Annars staðar á Norðurlöndunum er verið að borga mjög stórar upphæðir til flóttafólks. Svo er ekki hér. Það bætist því við þeirra velferðarkerfi. Þetta reiknast með þegar að menn ræða hér um þessi kerfi.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram, ég hef alltaf viðurkennt það, að hópar í okkar þjóðfélagi hafa það ekki nægilega gott og við erum sífellt að reyna að leita leiða til að koma til móts við þá. Ég taldi hér upp þær aðgerðir sem við höfum t.d. gripið til frá 1997. (ÁRJ: Hvað ætlar ráðherrann að gera?) Bætur hafa hækkað meira en launavísitala á undanförnum árum. Við munum ekki sætta okkur við annað en að þetta fólk búi við sómasamlegar aðstæður. Við eigum möguleika á því og sú íslenska leið sem hér liggur á borði þingmanna sýnir okkur að við eigum meiri möguleika á því en nokkur nágrannaþjóða okkar.