Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 15:01:56 (2431)

1999-12-07 15:01:56# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1999.

Nefndin hefur haft frv. til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.

Meiri hluti fjárln. gerir 80 brtt. við frv. sem samtals nema 2.410,4 millj. kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.

Í breytingartillögu er lögð til tæplega tveggja milljarða króna hækkun á framlögum til sjúkrastofnana sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið og kemur sú fjárhæð til viðbótar tæplega tveimur milljörðum sem þegar hafa verið lagðir til í frumvarpinu. Einnig verður farið fram á svipaða fjárhæð í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2000, til viðbótar tæplega tveggja milljarða króna aukningu sem þar er til reksturs sjúkrastofnana. Framlögunum er ætlað að koma til móts við áætlaðan uppsafnaðan halla sjúkrastofnana til ársloka 1999 og koma rekstri flestra stofnana á réttan kjöl árið 2000. Ljóst er að stjórnendur nokkurra stofnana þurfa að taka verulega á í fjármálastjórn til að reksturinn verði í jafnvægi.

Á liðnu vori var orðið ljóst að rekstur sjúkrastofnana stefndi talsvert fram úr fjárlögum þrátt fyrir að gerðar hafi verið ráðstafanir í lok síðasta árs til að greiða uppsafnaðan halla þeirra og leiðrétta rekstrargrunninn. Voru þær aðgerðir í samræmi við álit svonefnds faghóps heilbrigðisráðuneytisins sem um málið fjallaði. Ekki var brugðist við hallarekstrinum á árinu þrátt fyrir skriflega áréttingu heilbrigðisráðuneytisins um nauðsyn þess að stofnanir haldi útgjöldum sínum innan fjárheimilda. Ríkisendurskoðun var á haustdögum fengin til að fara yfir vandann og greina umfang hans fyrir afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga nú í lok ársins.

Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er að rekstrarhalli stofnana hafi verið gerður upp í árslok 1998 en að á þessu ári hafi aftur sigið á ógæfuhliðina og rekstur stofnana farið langt umfram heimildir fjárlaga. Nú er svo komið að uppsafnaður rekstrarhalli stofnana í árslok 1999 er áætlaður tæplega 4,2 milljarðar króna og þar af eru um 3,6 milljarðar vegna halla sem myndast hefur á þessu ári. Skiptist hallinn á launakostnað og önnur rekstrargjöld í svipuðum hlutföllum og þessi gjöld vega í heildarútgjöldum sjúkrastofnana. Meginskýringin á umframútgjöldum á launalið er að útfærsla kjarasamninga í mörgum stofnunum virðist hvorki hafa verið í samræmi við þau fyrirmæli og leiðbeiningar sem gefnar voru út né fyrirliggjandi fjárheimildir.

Í tillögunum er verulegum viðbótarfjármunum varið til reksturs sjúkrastofnana. Það eru fjármunir sem fara í kostnaðarhækkanir sem þegar eru áfallnar. Ljóst er að bæta má fjármálastjórn stofnana heilbrigðisráðuneytisins og gera hana skilvirkari en hún er nú. Það er mjög brýnt að ná tökum á þeim vanda og leita í því sambandi allra hugsanlegra leiða svo að þessar stofnanir fari að fjárlögum í framtíðinni. Þannig verði einnig tryggt að nýtt fé fari til að ná fram stefnumiðum stjórnvalda en ekki verði um leiðréttingar eftir á að ræða. Framlögin eru veitt með þeim skilyrðum að gerðir verði samningar við stjórnendur og að tekið verði á fjármálastjórn stofnana.

Til að tryggja rétta framkvæmd ákvarðana Alþingis um fjárframlög til stofnana og verkefna verður gert sérstakt átak sem Ríkisendurskoðun mun upplýsa um með skýrslugerð hvernig fram gengur af hálfu ráðuneytis og stofnana. Áformað er að í samningum við hverja stofnun komi skýrt fram hver fjárframlög eru og að stjórnendur beri ábyrgð á að reksturinn sé innan fjárheimilda. Jafnframt verði erindisbréf stjórnenda endurskoðuð og ábyrgð og eftirlitshlutverk stjórna endurmetið.

Ríkisendurskoðun mun gefa ráðuneytum og Alþingi skýrslu um framgang málsins á næsta ári. Samhliða verður komið í veg fyrir að stjórnendur stofni til skulda í lánastofnunum og safni upp óeðlilegum viðskiptaskuldum. Gerð verður krafa um að upplýsingar um rekstur stofnana miðað við fjárheimildir liggi fyrir mánaðarlega og að nauðsynlegt talnaefni úr launabókhaldi berist reglulega.

Kannað verður hvort breyta þurfi lögum um heilbrigðisþjónustu og staða framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda skýrð. Jafnframt verður á næsta ári ráðist í að ákvarða framlög til stofnana með hlutlægum hætti og reiknilíkönum beitt við skiptingu fjárveitinga á stofnanir í fjárlögum árið 2001. Markmiðið verður eins og fram hefur komið að tryggja að stofnanir verði reknar innan fjárheimilda og að stjórnendur beri ábyrgð á sama hátt og í öðrum atvinnurekstri.

Ég vík nú að skýringum við einstakar brtt.

Við æðstu stjórn ríkisins er gerð ein brtt., þ.e. um 8,8 millj. kr. aukafjárveitingu til Ríkisendurskoðunar til að standa straum af útgjöldum sem stofnað var til vegna beiðni ríkisstjórnarinnar um könnun á ólögmætum hugbúnaði í notkun hjá ríkisaðilum.

Óskað er eftir 2 millj. kr. aukafjárveitingu til að endurnýja þjónustubifreið í forsrn.

Undir liðnum Ýmis verkefni í forsrn. er farið fram á 21,5 millj. kr. hækkun. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 16 millj. kr. aukafjárveitingu á viðfangsefninu Vesturfarasetrið á Hofsósi en samkvæmt samningi milli forsrn. og Vesturfarasetursins á Hofsósi mun ríkissjóður leggja setrinu til 12 millj. kr. á ári í fimm ár, í fyrsta skipti árið 1999, til að byggja upp gamla þorpskjarnann á Hofsósi með það að markmiði að sérhæfa gamla hluta þorpsins til þjónustu og afþreyingar fyrir fólk af íslenskum ættum sem býr í Norður-Ameríku. Einnig er farið fram á 4 millj. kr. fjárheimild vegna flotbryggju við setrið. Framlag sem óskað er eftir í fjáraukalögum 1999 vegna þessa nemur því alls 16 millj. kr.

Í öðru lagi er gerð tillaga um 6,5 millj. kr. aukafjárveitingu til auðlindanefndar. Sýnt þykir að kostnaður við kaup á sérfræðiráðgjöf fyrir nefndina verði meiri en gert hafði verið ráð fyrir í fjáraukalögum 1998.

Loks er gerð er tillaga um að færa 1 millj. kr. sem sértekjur á viðfangsefninu Grænlandssjóður undir þessum fjárlagalið.

Gert er ráð fyrir að millifæra 32 millj. kr. fjárveitingu vegna byggingar þjónustuhúss við Almannagjá af viðfangsefni fyrir viðhaldskostnað á viðfangsefni fyrir stofnkostnað undir þessum fjárlagalið en fjárveiting til verkefnisins verður óbreytt.

Undir menntmrn. er lagt til að aukafjárveiting til Háskólans á Akureyri hækki um 27 millj. kr. til að koma til móts við fyrirsjáanlegan 20 millj. kr. rekstrarhalla árið 1999 og hluta af rekstrarhalla frá 1998. Ástæður hallans eru fyrst og fremst launahækkanir til starfsmanna og fjölgun nemenda.

Óskað er eftir 8 millj. kr. framlagi undir liðnum Framhaldsskólar, almennt, til kennslu vistmanna á stofnunum á vegum Barnaverndarstofu. Breyting verður á kennslu vistmanna eftir að sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 í 18 ár.

Gerð er tillaga um 10 millj. kr. aukaframlag til að kaupa Íslendingasögur á ensku til að gefa á bókasöfn og stofnanir erlendis í tilefni af afmæli landafunda Leifs Eiríkssonar.

Undir utanrrn. er gerð ein brtt. Sótt er um 15 millj. kr. aukafjárveitingu vegna fyrirsjáanlegs rekstrarhalla embættisins á árinu 1999. Gert er ráð fyrir sambærilegri hækkun í tillögu við 2. umr. frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2000. Með þessari auknu fjármögnun verður rekstur embættisins í jafnvægi í lok þessa árs.

Undir landbrn. er lagt til að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri fái 10 millj. kr. framlag vegna uppsafnaðs rekstrarhalla. Rekstrarhallinn stafar af minnkandi tekjum af búrekstri og launahækkunum í kjölfar aðlögunarsamninga.

Lagt er til að breyta heiti fjárlagaliðar. Hann heitir nú Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal til samræmis við lagabreytingar við skólann.

Undir sjútvrn. er sótt um 19,9 millj. kr. aukafjárveitingu til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins til að mæta rekstrarvanda stofnunarinnar. Nýjar áætlanir gera ráð fyrir að tap ársins 1999 verði á bilinu 23--25 millj. kr. Gert er ráð fyrir þessari niðurstöðu þrátt fyrir að stofnunin hafi gripið til aðgerða 1. október sl. sem m.a. fólu í sér uppsagnir á starfsfólki. Þess er vænst að árangur aðgerðanna verði að fullu kominn fram á næsta ári. Þar sem tap áranna 1997 og 1998 var samtals um 14 millj. kr. má gera ráð fyrir að uppsafnað tap verði alls um 40 millj. kr. í árslok verði ekkert að gert. Stofnunin áætlar að með aukafjárveitingunni og eigin aðgerðum, sem áætlað er að skili 20 millj. kr. í hagræðingu, verði vandi stofnunarinnar leystur til frambúðar.

Undir dóms- og kirkjumrn. er gerð tillaga um fjárveitingu til ríkislögreglustjóra um 8,6 millj. kr. til að standa undir kostnaði við vinnu fíkniefnastofu, efnahagsbrotadeildar og sérsveitar að rannsókn á tveimur umfangsmiklum fíkniefnamálum.

Lögreglustjórinn í Reykjavík. Farið er fram á 14,6 millj. kr. vegna vinnu að rannsókn á tveimur umfangsmiklum fíkniefnamálum.

Undir Áfengis- og fíkniefnamál. Lagt er til að veittur verði 3,5 millj. kr. styrkur til alþjóðlegs forvarnaverkefnis, Pallas Aþena. Markmið er að virkja ungt fólk í baráttunni gegn fíkniefnum á þeirra eigin forsendum. Í fjáraukalögum fyrir árið 1998 var veitt 1,5 millj. kr. til verkefnisins.

Undir félmrn. er tillaga um að svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vestfjörðum fái 1,2 millj. kr. aukafjárveitingu fyrir skammtímavistun sem opnuð var sl. haust í Vesturbyggð vegna brýnnar þarfar.

Undir liðnum Vinnumál er farið fram á 3,3 millj. kr. fjárveitingu til að greiða hlut ráðuneytisins í verkefninu ,,Handverk og hönnun``. Í ágúst sl. skipaði forsrh. nefnd til að fjalla um stuðning stjórnvalda við handverksgreinar. Nefndin hefur lokið störfum og leggur til að verkefni undir nafninu Handverk og hönnun verði haldið áfram á vegum forsrn. með þátttöku félmrn. og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Markmið verkefnisins er að stuðla að viðvarandi vexti handverks, að bæta menntun og þekkingu handverksfólks og efla gæðavitund í greininni.

Gerð er tillaga um að veita Foreldra- og kennarfélagi Öskjuhlíðarskóla 3 millj. kr. framlag til rekstrar félagsins á sumardvöl fyrir nemendur skólans, en halli hefur verið á rekstrinum síðustu tvö ár.

Undir heilbr.- og trmrn. er liðurinn Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Lögð er til 110 millj. kr. lækkun á framlögum á þessum lið. Það er í samræmi við endurskoðaða útgjaldaáætlun miðað við fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Í fyrsta lagi er lagt til að framlög til endurhæfingarlífeyris lækki um 30 millj. kr., í öðru lagi að framlög til heimilisuppbótar lækki um 50 millj. kr. Í þriðja lagi er gerð tillaga um að framlög til uppbóta lækki um 30 millj. kr.

Lífeyristryggingar. Gerð er tillaga um að framlög til tekjutryggingar ellilífeyrisþega lækki um 50 millj. kr. og að framlög til fæðingarorlofs lækki um 50 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða útgjaldaáætlun miðað við fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Alls lækkar þessi liður því um 100 millj. kr.

[15:15]

Á liðnum Sjúkratryggingar er farið fram á 255 millj. kr. hækkun fjárveitingar í samræmi við endurskoðaða útgjaldaáætlun miðað við fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Farið er fram á 50 millj. kr. hækkun fjárveitingar á viðfangsefninu Lækniskostnaður, 120 millj. kr. hækkun á viðfangsefninu Lyf, 30 millj. kr. hækkun á viðfangsefninu Hjálpartæki og 85 millj. kr. á viðfangsefninu Þjálfun. Loks er lagt til að framlög til brýnnar meðferðar erlendis lækki um 30 millj. kr.

Þá er komið að liðnum Sjúkrastofnanir. Lagt er til að veitt verði tæplega tveggja milljarða króna hækkun á framlögum til sjúkrastofnana sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið vegna áætlunar um uppsafnaðan rekstrarhalla í árslok 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Nánar er fjallað um þetta í inngangi. Í nál., sem liggur frammi á þskj., er listi yfir stofnanir og framlag til sérhverrar þeirra. Mun ég ekki rekja þann lista en hann liggur fyrir á þskj. 309.

Þá er komið að liðnum Sjúkrahús, óskipt. Lagt er til að veitt verði 316,6 millj. kr. fjárheimild til að bæta rekstrarstöðu sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana. Framlögum verður ráðstafað í samræmi við nánari skoðun á þeim stofnunum sem falla hér undir. Fyrirhugað er að heilbrigðisráðuneyti ásamt fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun fari nánar yfir fjármál einstakra stofnana. Ráðuneytin munu síðan leggja fyrir fjárlaganefnd skiptingu á framlaginu. Afgangsheimildir á þessum lið verða felldar niður. Í eftirfarandi yfirliti er greint frá hámarksfjárveitingum til einstakra stofnana og sá listi fylgir á þskj. 309 og liggur frammi og ég mun ekki lesa hann upp.

Þá er liðurinn Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Óskað er eftir 5 millj. kr. viðbótarfjárheimild fyrir Krýsuvíkursamtökin en þau hafa tekist á hendur erfiðari verkefni á yfirstandandi ári en hingað til. Fangelsisyfirvöld, félagsmálayfirvöld, svæðisskrifstofa fatlaðra og fleiri aðilar leita í vaxandi mæli úrlausna fyrir skjólstæðinga sína í Krýsuvík.

Þá er komið að liðnum Daggjaldastofnanir. Lagt er til að veitt verði 221,8 millj. kr. aukafjárveiting til að bæta rekstrarstöðu hjúkrunarheimila. Framlögum verður ráðstafað í samræmi við nánari skoðun á þeim stofnunum sem falla hér undir. Fyrirhugað er að heilbrigðisráðuneyti ásamt fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun fari nánar yfir fjármál einstakra stofnana. Síðan munu ráðuneytin leggja fyrir fjárlaganefnd skiptingu á framlaginu. Afgangsheimildir á þessum lið verða felldar niður.

Þá er komið að fjármálaráðuneyti og að liðnum Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun. Hér er gerð tillaga um 55 millj. kr. fjárveitingu á tveimur nýjum viðfangsefnum undir þessum fjárlagalið. Við breytta framsetningu á fjárlögum fyrir árið 1998 í kjölfar nýrra laga um fjárreiður ríkisins féllu þessar greiðslur út í áætlanagerð um nýja sundurliðun lífeyrisskuldbindinga og -greiðslna. Tillögunni er ætlað að laga fjárheimildir liðarins að endurskoðaðri áætlanagerð í samræmi við breytta framsetningu fjárlaganna. Annars vegar er um 45 millj. kr. fjárveitingu að ræða á viðfangsefninu Eftirlaun hæstaréttardómara. Hins vegar er tillaga um 10 millj. kr. á viðfangsefninu 1.91 Aðrar lífeyrisskuldbindingar og eftirlaun og er þar einkum um að ræða lífeyrisgreiðslur til ekkna og ekkla og ljósmæðra.

Þá eru Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Gerð er tillaga um 18,2 millj. kr. framlag til uppgjörs á skuldum nokkurra lítilla hitaveitna við ríkissjóð. Vorið 1997 skipaði iðnaðarráðherra nefnd um orkukostnað smærri hitaveitna og hvernig mætti leysa úr fjárhagsvanda þeirra. Í framhaldi af þeirri umfjöllun samþykkti Alþingi að veita 3,4 millj. kr. framlag í fjáraukalögum ársins 1997 til að bæta stöðu þessara hitaveitna en áður hafði verið veitt 5 millj. kr. fjárveiting vegna málsins á árinu 1996. Eftir stóðu þá enn þá talsverðar skuldir hitaveitnanna. Hér er lagt til að veitt verði framlag í samræmi við lið 8.19 í 7. gr. fjárlaga fyrir árið 1999 þar sem kveðið er á um að fjármálaráðherra sé heimilt að semja um lokauppgjör á skuldum lítilla hitaveitna við ríkissjóðs.

Í samgönguráðuneyti er óskað er eftir 22 millj. kr. aukafjárveitingu til lokauppgjörs á skuldum Djúpbátsins hf. Fjárveitingin er háð þeim skilyrðum að rekstri ferjunnar Fagranessins verði hætt. Ferjan verður varaferja fyrir Vestmannaeyjaferjuna Herjólf og Breiðafjarðarferjuna Baldur. Fyrirhugað er að Fagranesið verði staðsett á Ísafirði yfir vetrartímann.

Þá er það Vegagerðin. Endurskoðuð áætlun um markaðar tekjur til vegamála bendir til að þær verði 70 millj. kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Lagt er til að heimilað verði að ráðstafa viðbótartekjunum á árinu 1999 en fyrirhugað er að þeim verði varið til að mæta kostnaði við vatnaskemmdir á vegum.

Þá að Siglingamálastofnun. Óskað er eftir 38 millj. kr. aukafjárveitingu og er hún af tvennum toga. Annars vegar er farið fram á 25 millj. kr. aukafjárveitingu vegna dýpkunar hafnarinnar í Vopnafirði. Í framhaldi af líkanatilraunum Siglingastofnunar, sem lauk í mars sl., varð ljóst að kostnaður við dýpkun hafnarinnar í Vopnafirði ykist um 34,3 millj. kr. frá því sem hafnaáætlun gerði ráð fyrir. Hlutur ríkisins í þessum aukna kostnaði er 25 millj. kr. Hins vegar er óskað eftir 13 millj. kr. aukafjárveitingu til smíði á flotbryggju í Búðardal vegna landafundaafmælis. Framkvæmdir við höfnina verða að hefjast í ár til að hægt verði að ljúka þeim fyrir júní á næsta ári þegar hátíðahöld vegna landafundanna hefjast. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður 23 millj. kr. Hlutur ríkisins í kostnaðinum er 17 millj. kr. Í hafnaáætlun er gert ráð fyrir 4 millj. kr. fjárveitingu á næsta ári. Þá er farið er fram á 10 millj. kr. aukafjárveitingu til Ferðamálaráðs vegna stóraukinna umsvifa í markaðsmálum í Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Í viðskiptaráðuneyti er farið er fram á 3,5 millj. kr. aukafjárveitingu til að mæta kostnaði við undirbúning að starfsemi Fjármálaeftirlits. Þegar bankaeftirlit Seðlabanka og Vátryggingareftirlit voru sameinuð í byrjun þessa árs og Fjármálaeftirlitið stofnað var kveðið svo á um að undirbúningskostnaður skyldi greiddur af ríkissjóði, enda standa eftirlitsskyldir aðilar síðan undir kostnaði við starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

Þá er komið að umhverfisráðuneyti. Þar er óskað er eftir 4,5 millj. kr. framlagi til að mæta auknum rekstrarkostnaði úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál.

Farið er fram á 3,5 millj. kr. fjárveitingu til veiðistjóra. Annars vegar 1,5 millj. kr. til að mæta endurgreiðslukostnaði vegna aukinna minkaveiða á árinu 1999. Í fjárlögum ársins var gert ráð fyrir veiðum á 6.000 minkum en veiðin stefnir í mun hærri tölu. Hins vegar er óskað eftir 2 millj. kr. fjárheimild til að mæta kostnaði af auknum refaveiðum. Ríkissjóði er heimilt að endurgreiða allt að helming kostnaðar við veiðar á ref. Gert var ráð fyrir endurgreiðslum á 3.000 veiddum refum á þessu ári en veiðin stefnir í rúmlega 4.000 dýr.

Þá eru það Landmælingar Íslands. Óskað er eftir 7 millj. kr. til að standa undir útgjöldum við starfslokasamninga 11 starfsmanna. Er þetta lokauppgjör stofnunarinnar vegna slíkra samninga.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir brtt. fjárln. og þeim útgjaldaauka sem þær hafa í för með sér. Það má skipta þessum útgjaldaauka í nokkra málaflokka.

Í fyrsta lagi eru tillögur í fjáraukalagafrv. sem gera ráð fyrir hækkun á tryggingabótum og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í því efni. Í öðru lagi eru hækkanir til heilbrigðismála sem ég hef þegar gert grein fyrir. Í þriðja lagi er í frv. og brtt. hækkanir til löggæslu og ýmissa mála sem tengjast fíkniefnum. Í fjórða lagi eru í frv. ýmis mál sem tengjast menntamálum og afkomu skólakerfisins í landinu.

Þessi verkefni eru öll brýn en hér er um mikinn útgjaldaauka að ræða, það vil ég undirstrika. Það er ljóst að samkvæmt þeim áætlunum sem liggja fyrir um tekjur á árinu, ef þær standast, þá mun tekjuauki standa undir þessum útgjaldaauka vegna þess að það hefur verið kraftur í atvinnu- og efnahagslífi. Þrátt fyrir það þá má ekki missa sjónar af þeim efnahagslegu markmiðum að leggja hluta af þeim tekjuauka til þess að lagfæra afkomu ríkissjóðs og greiða niður skuldir ríkissjóðs. Hins vegar eru í fjáraukalagafrv. og brtt. mál sem hafa farið fram úr áætlun okkar í fjárlögum, en stefnumörkunin í ríkisfjármálum kemur vissulega fram í fjárlögum fyrir árið 2000 sem verða til umræðu síðar í vikunni. Ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma heldur vil ég að lokum segja örfá orð um þann lagaramma sem við störfum eftir í ríkisfjármálunum.

Svo sem menn rekur minni til mæltu lögin um fjárreiður ríkisins, sem komu til framkvæmda við gerð fjárlagafrv. fyrir árið 1998, fyrir um margvíslegar breytingar á framsetningu og uppbyggingu fjárlaga. Eitt meginmarkmiðið með þessum breytingum var að samræma og skapa um leið nauðsynlega festu í áætlanagerð ríkisins. Jafnframt þessu er í fjárreiðulögum bæði að finna sérstaka kafla um framkvæmd fjárlaga og sérstaka kafla um frv. til fjáraukalaga. Fram að gildistöku fjárreiðulaga var í lögum aðeins að finna fábrotin og brotakennd fyrirmæli um þessa þætti í fjárreiðum ríkisins. Með þessum ákvæðum fjárreiðulaganna var því á margan hátt brotið í blað í sögu fjármálastjórnar hjá ríkinu.

Í kaflanum um framkvæmd fjárlaga í fjárreiðulögum er kveðið á með skýrum hætti um heimildir framkvæmdarvalds til að ráðstafa fjármunum ríkisins á grundvelli ákvæða í fjárlögum. Þar er ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum m.a. sniðinn mjög þröngur stakkur þegar kemur að heimildum þeirra að víkja frá veittum fjárheimildum í fjárlögum. Rauði þráðurinn í þessum lagafyrirmælum er sá að koma á virku aðhaldi og almennum aga í fjárstjórn ríkisins og ríkisstofnana. Í þessu sambandi er vert að rifja upp grundvallarregluna í þessum efnum sem hér eftir sem hingað til er að finna í 41. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir að eigi megi greiða gjald úr ríkissjóði, nema með heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Segja má að með framangreindum hætti fjárreiðulaganna hafi verið settur nauðsynlegur og löngu tímabær lagarammi um heimildir framkvæmdarvaldsins í þessu efni. Við setningu þessa lagaramma var að sjálfsögðu höfð hliðsjón af þeim takmörkum sem stjórnarskráin mælir fyrir um í þessu efni. Í stuttu máli er ríkisstofnunum óheimilt að stofna til frekari fjárskuldbindinga en fjárlög hverju sinni leyfa. Þetta á bæði við um hefðbundin ríkisútgjöld og stofnkostnað. Ábyrgð forstöðumanna og stjórnar ríkisstofnana í þessu er skýr samkvæmt fjárreiðulögunum. Í 49. gr. þeirra er sérstaklega tekið fram að þessir aðilar beri ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra stofnana og fyrirtækja er undir þá heyra séu í samræmi við fjárheimildir.

Þá tel ég rétt að rifja það upp hér og nú að í fjárreiðulögunum var mörkuð skýr stefna um efni fjárlaga og fjáraukalaga og lokafjáraukalaga. Þannig gera lögin ráð fyrir því að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir komi fram í fjárlögum. Í fjáraukalögum innan hvers fjárlagaárs ber hins vegar að fjalla fyrst og fremst um þær fjárráðstafanir sem var ekki hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Hlutverk fjáraukalaga er að þessu leyti nokkuð skýrt, þ.e. þeim er ekki ætlað að snúast um rekstrarvanda einstakra ríkisstofnana, heldur fyrst og fremst um ófyrirséð atvik eða málefni.

[15:30]

Ég tel hollt að rifja upp þessi ákvæði fjárreiðulaga og markmið þeirra upp nú er við fjöllum um fjáraukalög fyrir árið 1999. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ýmsar spurningar hljóta að vakna um hvernig tekist hefur til í þessum efnum. Það þarf að bæta fjármálastjórn hjá mörgum stofnunum og gera hana skilvirkari. Fram hjá því er ekki hægt að líta að meginskýringin á umframútgjöldum í heilbrigðisgeiranum er að finna við útfærslu kjarasamninga í mörgum stofnunum, sem hvorki var í samræmi við fyrirmæli eða leiðbeiningar stjórnvalda né fyrirliggjandi fjárheimildir. Ég tel blasa við að átaks sé þörf á þessu sviði og mjög brýnt að þessi mál verði tekin föstum tökum ef tryggja á að markmið fjárlaga og yfirlýst stefna stjórnvalda náist.

Ég hef nú lokið máli mínu, en meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem að ég hef gert grein fyrir og skýrðar hafa verið framsöguræðu minni og í því nál. sem liggur fyrir og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir nál. skrifa Jón Kristjánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Árni Johnsen, Hjálmar Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Arnbjörg Sveinsdóttir og Kristján Pálsson.