Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 16:21:07 (2440)

1999-12-07 16:21:07# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[16:21]

Frsm. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að Magnús Pétursson, yfirmaður sjúkrahúsanna í Reykjavík, sé ekki skussi. Ég tel að hann sé mesti happafengur sem hefur komið á færið hjá hæstv. heilbrrh. og ég vek athygli á því að þær aðgerðir sem hann er að grípa til eru snöggt um skárri en menn gripu til á þeim bæ á síðustu árum.

Þegar ég tala um skussana, þá er það ekki ég einn sem nefni það, herra forseti. Það er þá bara rétt að hérna komi fram að við fengum þær upplýsingar í fjárln. fyrr á þessu hausti að nákvæmlega væri vitað hverjir skussarnir væru. Það var sagt að af 100 og eitthvað forstöðumönnum væru 22 þeirra í sérstökum hópi, þeir væru alverstir. Vandamálahópurinn er því þekktur og hvers vegna er þá ekki beitt sérstökum aðgerðum gagnvart honum?

Ég vek líka athygli á því, herra forseti, að í greinargerð Ríkisendurskoðunar kemur fram að þar sem beitt er öflugri og virkri fjárstjórn er hallinn miklu minni. Hvað þýðir það, herra forseti? Það er verið að segja að þar sem eru forstöðumenn sem ráðast að sjálfsögðu í erfiðar aðgerðir og mæta alls konar mótlæti vegna þeirra, þar eru útlát skattborgaranna minni. Það er það sem skiptir miklu máli. Við verðum að geta treyst því að þeir sem veljast til ábyrgðarstarfa af þessu tagi standi undir þeirri ábyrgð alveg eins og við verðum að geta treyst því að þeir sem veljast til að vera yfirmenn málaflokka eins og heilbrigðismála standi undir þeirri ábyrgð.

Ég spyr hv. þingmenn: Er það að standa undir þeirri ábyrgð þegar ráðuneytið bregst ekki við neyðarópum úr kerfinu?