Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 16:30:17 (2446)

1999-12-07 16:30:17# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[16:30]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er fjáraukalagafrv. til 2. umr. Ég vil í upphafi vísa til nefndarálits minni hlutans sem hefur verið dreift og nefndarálits meiri hlutans.

Herra forseti. Ég vil líka í upphafi víkja að umræðu sem varð þegar fjáraukalagafrv. var lagt fram í haust, þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir frv. um fjáraukalög. Þá var reyndar aðeins mælt fyrir 5--6 milljarða halla eða til aukinna útgjalda frá fjárlögunum. Ég vék að því í ræðu minni þá að þessi meðferð á fjárlögum, þar sem efnt væri til útgjalda og síðan leitað heimilda eftir á, væri þingræðislega hæpin aðgerð því það liggur fyrir að meginhluti þess fjár sem hér er verið að mæla fyrir hefur þegar verið eytt eða ráðstafað. Og á ábyrgð hverra? Jú, því hefur verið ráðstafað á ábyrgð framkvæmdarvaldsins vegna þess að löggjafarvaldið hefur ekki enn fjallað um það. Ég leyfi mér, herra forseti, að lesa upp úr lögum um fjárreiður ríkisins um það hvernig beri að nota fjáraukalög við stjórn fjármála ríkisins:

,,Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.``

Þetta eru í rauninni hin skýru ákvæði.

Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann muni enn taka svo til orða eins og þegar hann mælti fyrir frv. til fjáraukalaga. Þegar ég gerði alvarlegar athugasemdir við það að þarna væri í rauninni verið að brjóta þingræðislega meðferð, að þarna væri verið að fara á svig við lög um fjárreiður ríkisins þá svaraði hæstv. fjmrh., með leyfi forseta:

,,Því miður er það þannig í okkar stjórnkerfi að menn verða að geta stjórnað landinu og ríkisstjórnin starfar í skjóli þingmeirihlutans. Hún verður oft og tíðum að taka ákvarðanir sem kalla á útgjöld fyrirvaralítið, en getur auðvitað gert það vegna þess að hún hefur stuðning þingmeirihlutans á bak við sig og getur gengið að því vísu að hún hafi stuðning fyrir þessum aðgerðum á Alþingi. Ef það kemur í ljós að svo væri nú ekki með eitthvert tiltekið atriði þá þyrftu menn auðvitað að hugsa mjög sinn gang, í það minnsta þeir menn sem ábyrgð bæru á því.``

Herra forseti. Í umræðum um þetta frv. til fjáraukalaga hefur það líka komið fram að meginhluti þess sem þar er lagt til eru fjárveitingar sem ekki falla undir þessa skilgreiningu fjáraukalaga samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins. Þetta eru ekki skyndilegar aðgerðir sem reynst hafa nauðsynlegar af þeim ástæðum sem ég gat um áðan, heldur er þetta fyrirsjáanlegur rekstrarhalli, uppsafnaður rekstrarhalli að langmestum hluta og svo einstakar ákvarðanir sem ekki var endilega brýnt að taka á þessu ári og gátu beðið afgreiðslu fjárlaga.

Herra forseti. Þegar framkvæmdarvaldið fer svo með löggjafarvaldið þá er vissulega umhugsunarefni hvaða traust er hægt að bera til þess og reyndar líka hvaða skilaboð er verið að senda út í þjóðfélagið, út til undirstofnana ráðuneytanna, því að eftir höfðinu dansa limirnir og menn geta ekki búist við því endilega að undirsátar séu yfirmönnum sína þarna í öllu fremri. Það er búið að stofna til þessara útgjalda og án nokkurrar brýnnar nauðsynjar á að leggja það þarna fram. Vafalaust eru þetta allt hin verðugustu verkefni. En vinnubrögðin eru ekki eins og lög kveða á um. Í lögum um fjárreiður ríkisins er líka heimild til þess að færa á milli ára, þ.e. færa á fjárlög næsta árs, hafi þurft að grípa til skyndilegra útgjalda sem hafi þótt hagkvæmt að gera.

Herra forseti. Ég tel að þessi fjáraukalög, eins og við hér erum að vinna þau, séu alls ekki í takt við það sem okkur beri að gera. Fjáraukalög eiga að vera til þess að taka á ófyrirsjáanlegum eða aðsteðjandi vanda eftir að fjárlög hafa verið samþykkt. Mér fyndist miklu nær, eins og víða er gert í öðrum löndum, að leggja fjáraukalög fyrir vorþing þannig að þeim yrði lokið í mars, apríl eða maí, því þá væri ljóst hvað gæti verið á ferðinni, nýir kjarasamningar eða annar kostnaður sem gæti komið upp og væri þá hægt að taka á því lögum samkvæmt og Alþingi gæti fjallað um það.

Herra forseti. Við stöndum nú frammi fyrir því að meginhluti þessarar gjaldaaukningar snýr að einum málaflokki og jafnframt er því lýst yfir að þegar leysa á vanda eða greiða upp skuldir þessa málaflokks, þá eigi líka að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða, til stjórnunaraðgerða, til verklagsaðgerða o.s.frv., en til engra slíkra aðgerða hefur verið gripið enn. Það liggur ekki fyrir sundurliðað í verkáætlun hvernig eigi að veita ráðherrum og ráðuneytum það aðhald sem þeir greinilega þurfa, né heldur hvernig eigi veita forstöðumönnum hinna ýmsu stofnana það aðhald sem þeir þurfa. Það væri miklu eðlilegra að þessar verklagsreglur allar og ráðstafanir lægju fyrir þegar við göngum frá jafnmikilvægum málaflokkum og hér eru. Þess vegna gætum við frestað því að ganga frá fjáraukalögunum þangað til þessar reglur væru komnar og þá samþykkt, hvort heldur það væri í febrúar eða mars. Þetta eru hvort eð er útgjöld sem búið er að efna til að langmestu leyti. Við ætlum ekki að stöðva heilbrigðiskerfið, síður en svo. En við viljum að þetta gangi eðlilega fyrir sig þannig að við þurfum ekki stöðugt að ganga á svig við lög til að dæmið gangi upp.

Hér er ákveðið að leysa að meginhluta uppsafnaðan rekstrarvanda heilbrigðisstofnananna og öll viljum við að heilbrigðisstofnanirnar gangi og þeirra störf og þeirra verkefni séu sem best unnin. En, herra forseti: Hvað með allar aðrar stofnanir? Hvers konar skilaboð eru þetta til samfélagsins, til verkefna og stofnana ríkisins? Hvers konar skilaboð eru það þegar við hyglum sumum barna okkar, gefum þeim allt, bæði gull og gersemar og greiðum allan þeirra vanda en segjum svo við hin börnin sem eru alveg jafnmikilvæg þjóðfélaginu: ,,Nei, þið eruð ekki í náðinni og þess vegna fáið þið ekki neitt.`` --- Hvers konar stjórnviska er þetta og hvernig uppeldi er þetta innan ríkisins?

Herra forseti. Ég held að ein af aðgerðunum í ríkisfjármálunum ætti að felast í því að senda handhafa framkvæmdarvaldsins á námskeið í uppeldisfræðum um það hvernig þeir eigi að umgangast nágrannana, umgangast sína eigin fjölskyldu þannig að meiri líkur á sátt gætu orði.

Hvaða réttlæti er í þessu? Tökum sem dæmi stofnun eins og Vegagerðina. Öll viljum fá miklu betri vegi og fyrir liggja þáltill. ríkisstjórnar og þingmanna og fjölmargar aðrar ályktanir um stórkostlegar vegabætur. Við vitum að vegabætur eru eitt það besta sem við getum gert fyrir landsbyggðina. Af hverju fór Vegagerðin ekki 1 milljarð kr. fram úr og lagði góða vegi? Hvers vegna? Hvers vegna gerði hún það ekki líka? Þá hefðum við bara bætt það upp núna og látið hana svo hafa annan milljarð til viðbótar á næsta ári til þess að gefa henni svolitla viðurkenningu fyrir framtakið. Þetta erum við að gera, herra forseti.

Ég nefndi Vegagerðina og ég vil einnig nefna byggðamálin. Um fátt hefur verið meira talað á þessu ári en vanda landsbyggðarinnar. Í kosningum var þetta eitt aðalmálið. Eitt aðalmálið var ekki rekstur heilbrigðisstofnana, ekki aldeilis. Nei, hver einasti frambjóðandi talaði um byggðamál og þá háu skuld sem þjóðfélagið og ríkisvaldið ætti ógreidda gagnvart landsbyggðinni. Hefði ekki verið nærtækara að taka þessa alvarlegu skuld og að greiða hana upp? Hún hefur safnast upp á mörgum árum, ekki bara á einu ári eins og það sem hér er verið að taka á hjá heilbrigðisstofnunum.

Hluti vanda okkar í ríkisfjármálunum á þessu ári er líka það að útlán Íbúðalánasjóðs fóru 7 eða 8 milljörðum fram úr því sem Íbúðalánasjóði var ætlað þannig að hann þarf að leita heimilda til aukinnar lántöku. Og fyrir hverja var verið að byggja íbúðarhús? Jú, að stórum hluta fyrir það fólk sem flutti af landsbyggðinni til þéttbýlisins. Þessi þróun er hluti af þeirri þenslu sem hér ríkir. Ég er viss um það, herra forseti, að ef okkur hefði tekist að slá á þessa búferlaflutninga, þó ekki væri nema um helming, þá hefðum við sparað ríkissjóði og þjóðfélaginu milljarða kr. Af hverju er ekki tekið á þessu þegar stofnunum og þjóðfélagshópum eru gefnar syndakvittanir?

Herra forseti. Þegar við ætlum að gefa út svona syndakvittanir og hvítþvo okkur hvers vegna er þá ekki tekið á vanda elli- og örorkulífeyrisþega? Af hverju eiga þeir að gjalda þessa góðæris? Þeim tókst ekki að fara fram úr áætlun. Ekki gátu þeir sem sáu um að greiða þeim bætur farið fram úr áætlun og sagt: ,,Hérna, þið hafið virkilega þörf fyrir þetta. Við vitum það og þess vegna skulum við láta ykkur hafa meiri peninga.`` Nei, svona vinnubrögð og svona uppeldi innan ríkiskerfisins eru alveg furðuleg og með endemum.

Þá vík ég aftur að kaflanum um heilbrigðismálin af því hann hefur verið sérstaklega til meðferðar. Þar hefur verið dregið fram að stór hluti vandans hafi verið vegna kjarasamninga, aðlögunarsamninga og framgangssamninga. Ég fór í gegnum hliðstæða kjarasamninga og aðlögunarsamninga þegar ég starfaði við mína stofnun og veit þess vegna um hvað málið snýst, a.m.k. hvað hana varðar.

[16:45]

Það hefur komið fram hjá mörgum aðilum, fulltrúum stofnana sem komu til fjárln., að þeir voru algerlega vanbúnir að takast á við þau verkefni sem þeim voru falin. Engu máli skipti þó að þeim hafi verið sendur bunki af bréfum og pappír frá fjmrn. um það hvernig ætti að gera þessa samninga. Ég veit að þau bréf voru ekki einu sinni eins frá viku til viku. Stöðugt var ágreiningur á milli forustu stéttarfélaganna og fjmrn. hvernig bæri að túlka hin og þessi atriði. Gögnin sem forstöðumenn stofnana voru að fá í hendur gátu verið býsna misvísandi þannig að það var alls ekki svo einfalt mál. Þar fyrir utan lágu forstöðumennirnir ekkert á því, hvorki gagnvart fagráðuneyti sínu né fjmrn. að þeir væru ekki í stakk búnir til að gera þetta. Hver var þá ábyrgð ráðuneytanna? Stofnanirnar og forstöðumennirnir vinna á ábyrgð ráðuneyta sinna, ganga þangað inn til þess að leita aðstoðar. Í flestum tilvikum var svarið að því miður væri ekki aðstoð að fá, menn yrðu bara að klára sig. Svona afstaða bæði fjmrn. og fagráðuneyta, sem hér hefur komið fram, er óábyrg. Menn eiga að axla ábyrgð sína en ekki að kenna alltaf öðrum um.

Herra forseti. Formaður fjárln. og framsögumaður sagði að það hefði verið brotið í blað við setningu fjárreiðulaganna. Það er ábyggilega mjög gott en það er alveg hörmulegt til þess að vita að á fyrsta alvörustarfsári þess skuli þau vera brotin sjálf. Batnandi mönnum er best að lifa og við vonum að framvegis verði hægt að taka á þessum málum með réttum tökum. En þó, herra forseti, verð ég að láta í ljós að ég er vantrúaður á það. Við erum með nákvæmlega sömu ráðherra og ríkisstjórn sem hefur borið ábyrgð á þessum málum hingað til. Þar er engin breyting á. Þegar við höfum verið að ganga eftir verklagsreglum, sem á að vinna eftir, hafa ekki komið um það svör. Það hafa komið viljayfirlýsingar um það sem okkur langar til en um það snýst ekki málið.

Ég tek reyndar undir það sem hæstv. heilbrrh. sagði á fundi með fjárln. í morgun. Þessar reglur eiga ekki aðeins að gilda um forstöðumenn og rekstur heilbrigðisstofnana. Það eiga ekki að gilda neinar sérreglur um þær frekar en aðrar stofnanir. Í flestum tilvikum eru þessar reglur til. En eðlilega á að gilda það sama yfir alla stjórnsýsluna og þá ekki síst ráðuneytin sjálf. Þegar við flettum í gegnum fjáraukalagafrv. rekum við okkur hvað eftir annað á að sótt er um heimild til að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla eða rekstrarhalla á aðalskrifstofu ráðuneytanna. Hver er þar ábyrgur verkstjóri? Fleiri slík dæmi heyra beint undir þá skrifstofu og undir framkvæmdarvaldið þar. Meðan ekki er tekið á þessu af fullum krafti og þunga þarf ekki að búast við að ná árangri annars staðar.

Ég legg áherslu á að áður en fjárlög verða afgreidd fyrir árið 2000 liggi miklu ítarlegri greinargerð og verklagsreglur um það hvernig ætlunin er að vinna með stofnunum og ráðuneytum af hálfu Alþingis í að framkvæma fjárlögin því eins og við nú stöndum frammi fyrir er fjárlagagerðin svo ómarkviss í ákveðnum málaflokkum að það gegnir alveg hreinni furðu.

Herra forseti. Ég legg því til að í þeirri endurskoðun sem verið er að boða í vinnu við fjárlagagerð eigi í alvöru að skoða það að fjáraukalög séu gefin út fyrir mitt ár þannig að þau séu bæði samtímis eftirlits- og stýritæki og spegli sannanlega vilja Alþingis á hverjum tíma til þeirra útgjalda sem það vill stofna til en ekki að taka á móti þessu eins og hefur tíðkast.