Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 17:25:30 (2451)

1999-12-07 17:25:30# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[17:25]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekkert um að það að forstjórar ríkisfyrirtækja héldu illa á spöðunum. Það voru einhverjir aðrir sem ræddu um það. Við höfum ekkert í höndunum til mæla það. Það er nefnilega mjög nauðsynlegt að koma okkur upp fleiri mælitækjum en við höfum.

Hins vegar er mér vel kunnugt um að það er mjög mikið misræmi í öldrunarstofnunum. Sumar þeirra eru á daggjöldum, og það hefur verið dálítið einkennilegt að fara í gegnum það, aðrar slíkar stofnanir eru á föstum fjárlögum. Það eru alls ekki sömu lögin og sömu reglurnar sem gilda.

Hins vegar er það svo, herra forseti, að í dag er verið að vinna og er búið að undirbúa það mjög vel að þessu verði breytt. Það er verið að setja þetta inn í amerískt kerfi sem metur hjúkrunarþyngdina. Ég veit að það verða kannski erfiðleikar fyrstu árin að samræma það og gera það íslenskt en það er verið að vinna a.m.k. í mikilli alvöru að því að reyna að samræma þetta til þess að það rosalega misvægi sem er núna á stofnunum hverfi. Það er verið að vinna að því af mikilli alvöru. Mér er sagt að menn trúi því að á næstu einu til tveimur árum geti það orðið raunveruleiki og það er verið að flokka það núna í fyrsta skipti inn í þetta samkvæmt fjárlögunum 2000.

Ég er því alveg sammála hv. þm. að hér er um heilmikið vandamál að ræða, þetta hefur verið mjög á flökti. En það verður að bæta þetta og þetta er liður í því líka að koma þessu í fastara form þannig að við getum vitað meira en við gerum í dag hvað við erum með í höndunum þegar við erum að fjalla um kostnaðarþróun heilbrigðisþjónustunnar.