Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 17:31:03 (2454)

1999-12-07 17:31:03# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[17:31]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka að auk þess að taka upp markvissari aðgerðir í að fylgja eftir framkvæmd fjárlaga er nauðsynlegt að taka upp markvissari aðgerðir við gerð fjárlaga. Þær forsendur sem fjárlagagerðin byggir á, verkefni einstakra stofnana, þurfa að vera í takt við það sem við viljum. Ég veit að það hefur oft á tíðum skort. Áætlanir þurfa að standast en ekki með því að senda lögregluhunda á forstöðumenn. Það er engin lausn.

Svo er annað, herra forseti. Mér brá þegar ég heyrði hv. þm. nefna amerísku aðferðina í heilbrigðiskerfinu. Hvað á hann við með amerísku aðferðinni? Á að ameríkansera heilbrigðiskerfið hér? Má ég heldur biðja um hina vestfirsku samhjálp, herra forseti. Ég bið hann að standa með mér í því.

Varðandi hitt sem hann minntist á, viðskiptahallann sem er eitt alvarlegasta mál okkar í dag, hallinn á rekstri þjóðarbúsins sem byggir á neyslu og neysluaukningu. Við erum ekki að byggja eða styrkja frumþættina, þetta er bara neysla. Af því höfum við áhyggjur. Við höfum áhyggjur af því að fjárlögin sem nú er unnið að taki ekki á þessu. Það er ekki bara neysla ríkisins heldur líka einkageirans, einkaneyslan. Þenslan þar er jafnhættuleg fjármálum þjóðarbúskaparins og ríkisfjármálin.