Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 17:36:03 (2458)

1999-12-07 17:36:03# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EMS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[17:36]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir hlýleg orð í garð okkar minnihlutamanna og sérstaklega fyrir það hve hrifinn hann var af fyrri hluta nál. okkar. Það er ástæða til að leggja áherslu á að álit okkar tekur að sjálfsögðu mið af því sem gerst hefur og af áhyggjum okkar af því að hið svokallaða góðæri sé nýtt af heldur mikilli lausung og kæruleysi.

Við höfum af því áhyggjur þetta geti sett í gang verðbólgu enn á ný, í þær hæðir sem við viljum ekki sjá en voru hér á árum áður. Því miður bendir ýmislegt til þess að góðærið hafi haft þau áhrif á hæstv. ríkisstjórn að hún hafi ekki talið ástæðu til að sýna nægilegt aðhald á ýmsum sviðum. Þess vegna höfum við lagt á það áherslu í nál. okkar að fara almennum orðum um þær áhyggjur. Í áliti okkar höfum við einnig bent sérstaklega á t.d. lög um fjárreiður ríkisins. Við teljum að taka eigi mið af þeim lagatexta sem gildir hverju sinni. Við vörum við að í því frv. sem hér liggur fyrir um fjáraukalög sé ekki farið nægjanlega eftir þeim lögum. Við höfum bent á ákveðin ákvæði í þeim lagatexta og fært fyrir því rök að ekki sé nægjanlega nálægt þeim orðum farið. Vegna orða hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að hann sé ekki sammála þeim niðurstöðum sem við höfum komist að, þ.e. að 75--80% af þessum útgjaldatillögum eigi ekki að vera í fjáraukalögum, þá held ég að nauðsynlegt sé að í áframhaldandi vinnu fjárln. um fjárlagafrv. verði það skoðað nánar. Við í minni hlutanum höfum látið taka saman fyrir okkur yfirlit sem sýnir hvernig þessi útgjöld skiptast. Samkvæmt því eru þessar tölur varlega áætlaðar. Hins vegar viljum við ekki sverja fyrir að einhver mistök gætu hafa átt sér stað og því er nauðsynlegt að í vinnu nefndarinnar verði farið nánar í þau mál. Ég trúi því að meiri hluti nefndarinnar deili því með okkur að vilja nálgast texta laga um fjárreiður ríkisins eins mikið og kostur er.

Í nál. okkar setjum við þetta í samhengi við það sem við köllum agaleysi og jafnvel kæruleysi ríkisstjórnarinnar. Eins og ég sagði áðan höfum við af því áhyggjur að þjóðin fái þau skilaboð. Við teljum það ekki við hæfi og geta valdið meiri vanda en þörf er á.

Við leggjum mikla áherslu á það í nál. okkar að fjalla sérstaklega um fjárþörf heilbrigðiskerfisins. Að sjálfsögðu er það ekki að ástæðulausu. Af þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað virðast þær áhyggjur flestum sameiginlegar. Menn virðast sammála um að skoða þurfi nákvæmlega hvað þar hafi gerst og reyna að koma í veg fyrir að þar eigi sér stað endurtekning.

Við höfum nýtt okkur skýrslu sem fjmrn. og heilbrrn. báðu Ríkisendurskoðun að taka saman. Þar er farið yfir heilbrigðisstofnanir í landinu, niðurstöður hennar hafa verið margkynntar og tillögur meiri hluta fjárln. byggjast í raun á þeirri skýrslu.

Það er töluvert áhyggjuefni að miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið, jafnt í viðtölum sem eftir öðrum leiðum, virðist skorta mjög á það að upplýsingar berist eðlilega á milli aðila. T.d. er athyglisvert að sjá framkvæmd kjarasamninga þar sem ferlið virðast ekki stemma við fullyrðingar sem m.a. komu fram hjá fjmrn. um að leiðsögn hafi verið veitt um hvernig standa ætti að kjarasamningum. Forstöðumenn og jafnvel fulltrúar heilbrrn. virðast ekki hafa meðtekið þann boðskap sem sendur var frá fjmrn. og á stundum kannast þeir ekki við hann. Hér er greinilega um mjög alvarlega hluti að ræða sem fara þarf sérstaklega í gegnum og tryggja að endurtaki sig ekki.

Í þessu samhengi er býsna athyglisvert að skoða hinn svokallaða verkefnavísi fjmrn. þar sem birt er yfirlitstafla um skil einstakra ráðuneyta varðandi verkefni einstakra stofnana. Það er sláandi að ráðuneytið sem hér kemur við sögu og mestir fjármunir eru ætlaðir til í fjáraukalögum er með langlægsta hlutfall þeirra stofnana sem skilað hafa inn í verkefnavísinn. Þar munar ekki örfáum prósentum frá því ráðuneyti til annarra ráðuneyta heldur liggur mér við að segja að himinn og haf sé þar á milli.

Hér er vísbending sem ég ætla ekki að fullyrða að segi okkur að skortur sé á upplýsingastreymi milli stofnana til ráðuneytis, en þetta er enn eitt atriðið sem nauðsynlegt er að skoða.

Athyglisvert er að það virðist einkenna flestar heilbrigðisstofnanir að skortur er á að markmið hverrar stofnunar fyrir sig séu skilgreind nægilega. Þar hlýtur ábyrgð ráðuneytis að vera mikil. Þegar skoðað verður hvernig menn ætla að reyna að tryggja að í þetta sinn verði ekki endurtekning á því sem gerst hefur hin fyrri ár kemur í ljós að ekki liggja fyrir skilgreindir samningar eða markmið um það hvernig og hvað hver stofnun eigi að gera. Þetta segir okkur að sjálfsögðu að býsna mikill vandi hljóti að vera, fyrir forstöðumenn og hið ágæta starfsfólk stofnananna, að reyna að halda sér innan þess fjárhagsramma sem þeim er settur. Ekki síst í því samhengi, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, að jafnvel er kvartað yfir því að ráðuneytið hafi ekki svarað umbeðnum upplýsingum um hvernig eigi að bregðast við vandanum.

Ljóst er að ábyrgð forstöðumanna er mikil. En ábyrgð ráðuneytis hlýtur einnig að vera mikil og oft og tíðum meiri. Ef ráðuneytið hefði komist að því að einhver þessara forstöðumanna hefði í raun ekki staðið sig í starfi þá eru öll lagaákvæði til að veita þeim áminningu. Mér er ekki kunnugt um það að einn einasti forstöðumaður í heilbrigðisstofnunum á landinu hafi fengið slíkar áminningar. Meðan svo er ekki þá hlýtur ábyrgðin að liggja annars staðar en hjá þeim starfsmönnum.

Auk þess að þessa samninga skorti, eins og ég sagði áðan, virðast engar viðmiðunarreglur heldur vera til í kerfinu. Í fjárln. er okkur sagt að nú eigi að fara að setja slíkar reglur svo hægt sé að miða við eitthvað og gera eigi þessar viðmiðunarreglur fyrir áramót. Ég tel að okkur sé alveg ljóst, okkur flestum a.m.k. í fjárln., að nauðsynlegt er að þessar viðmiðunarreglur verði tilbúnar áður en frv. verður afgreitt frá nefndinni. Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir þingheim að hafa fyrir því eins mikla tryggingu og kostur er að fyrri mistök endurtaki sig ekki.

[17:45]

Það hefur áður komið fram í umræðunum að hæstv. heilbrrh. kom á fund fjárln. í morgun. Um þessi mál var rætt vítt og breitt og þar kom ýmislegt fram. Það verður að segjast og er rétt að þakka hæstv. ráðherra fyrir þá hreinskilni sem kom fram í þeim umræðum og ekki ástæða til þess í smáatriðum að fara yfir þá umræðu alla. Þó eru nokkur atriði sem nauðsynlegt er að komi fram.

Það er t.d. alveg ljóst, vegna þess að ekki bárust tilhlýðileg svör að mínu mati frá fulltrúum ráðuneytisins sem á fundi okkar voru, að svo virðist að ekki liggi fyrir nákvæm úttekt á því hvað í raun og veru er ókomið af þeim samningum sem þegar hafa verið gerðir við starfsfólk í heilbrigðiskerfinu. Þar að auki liggur fyrir að um 30% þeirra starfsmanna sem þar vinna eru með lausa samninga á næsta ári og að sjálfsögðu verður að telja eðlilegt að þeir starfsmenn taki viðmið af þeim samningum sem gerðir hafa verið í kerfinu. Þess vegna virðist ýmislegt benda til þess að þær áætlanir sem gerðar eru fyrir næsta ár muni að einhverju leyti --- það er alla vega hætta á því skulum við segja --- ekki standast.

Það kom einnig fram á fundi fjárln. í morgun að heilbrrn. hafi í raun haft á tilfinningunni, eins og það var orðað, þá niðurstöðu sem Ríkisendurkoðun komst að með skýrslu sinni. Það segir okkur að í raun hafi verið vitneskja um það í heilbrrn. að tölurnar væru jafnháar og raun bar vitni. En, svo ég nefni enn upplýsingastreymið, þær upplýsingar hafa þá væntanlega ekki borist til fjmrn. og er það auðvitað áhyggjuefni.

Það kom einnig fram, a.m.k. mátti skilja það á orðum hæstv. heilbrrh., að fjmrn. hefði á ýmsum stigum málsins verið látið vita af alvarleikanum en það var heldur ekki hægt að skilja hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að ráðherrann upplifði málið þannig að ekki hefðu borist að þeirra mati viðunandi leiðbeiningar úr fjmrn. varðandi þann vanda sem fyrir hendi var. Þess vegna hljótum við að velta því enn einu sinni fyrir okkur hvernig samskiptum þessara annars ágætu ráðuneyta er háttað.

Herra forseti. Það kom fram áðan í ræðu hv. þm. Hjálmars Jónssonar að í rauninni væri búið að setja heilbrrn. í gjörgæslu. Það er auðvitað margt sem bendir til þess að full þörf sé á slíku. Ég vil í þessu sambandi, herra forseti, vitna til nál. meiri hluta fjárln. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að bæta má fjármálastjórn stofnana heilbrrn. og gera hana skilvirkari en hún er nú. Það er mjög brýnt að ná tökum á þeim vanda og leita í því sambandi allra hugsanlegra leiða svo að þessar stofnanir fari að fjárlögum í framtíðinni. Þannig verði einnig tryggt að nýtt fé fari til að ná fram stefnumiðum stjórnvalda en ekki verði um leiðréttingar eftir á að ræða. Framlögin eru veitt með þeim skilyrðum að gerðir verði samningar við stjórnendur og að tekið verði á fjármálastjórn stofnana.``

Hér er á margan hátt býsna skýrt frá sagt. Það er greinilegt að það er vilji meiri hluta fjárln. að sá vandi sem við er að etja verði ekki eins að ári. Ég trúi því að þær væntingar eigum við í minni hlutanum sameiginlegar með meiri hlutanum.

Herra forseti. Í nál. meiri hluta fjárln. segir áfram, og er nú ekki dregið úr skýrleikanum, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Til að tryggja rétta framkvæmd ákvarðana Alþingis um fjárframlög til stofnana og verkefna verður gert sérstakt átak sem Ríkisendurskoðun mun upplýsa um með skýrslugerð hvernig fram gengur af hálfu ráðuneytis og stofnana. Áformað er að í samningum við hverja stofnun komi skýrt fram hver fjárframlög eru og að stjórnendur beri ábyrgð á að reksturinn sé innan fjárheimilda. Jafnframt verði erindisbréf stjórnenda endurskoðuð og ábyrgð og eftirlitshlutverk stjórna endurmetið.``

Hér er enn á ný býsna skýrlega mælt. Það er hins vegar og vekur sérstaka athygli að þörf skuli vera á því nú á árinu 1999 að setja slík ákvæði inn í texta meiri hluta fjárln. Það er ekki að sjá annað en að þetta séu allt sjálfsagðir hlutir og hefðu löngu átt að vera komnir til framkvæmda. Enn er bætt við í nál. meiri hluta fjárln. og segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun mun gefa ráðuneytum og Alþingi skýrslu um framgang málsins á næsta ári. Samhliða verður komið í veg fyrir að stjórnendur stofni til skulda í lánastofnunum og safni upp óeðlilegum viðskiptaskuldum. Gerð verður krafa um að upplýsingar um rekstur stofnana miðað við fjárheimildir liggi fyrir mánaðarlega og að nauðsynlegt talnaefni úr launabókhaldi berist reglulega.``

Hér er gjörgæsluskýringin í rauninni komin fram. Ríkisendurskoðun í nafni Alþingis mun nákvæmlega fylgjast með því hvernig þessum málum muni fram vinda. Það er hins vegar ekki síður athyglisvert sem segir í síðustu setningunni þar sem gerð er krafa um að upplýsingar um rekstur stofnana miðað við fjárheimildir liggi fyrir mánaðarlega og að nauðsynlegt talnaefni úr launabókhaldi berist reglulega. Hvað er hér verið að segja? Er verið að segja að talnaefni úr launabókhaldi berist mjög óreglulega? Og hver er þá ástæðan fyrir því að upplýsingar úr launabókhaldi berst ekki reglulega? Hér eru mjög alvarlegir hlutir á ferðinni. Það skyldi þó ekki vera að ýmislegt sem hér segir sé kannski ein meginskýringin á þeim vanda sem við er að kljást og frv. til laga um fjáraukalög ber akkúrat merki um, og ég tala nú ekki um þær brtt. sem nú liggja fyrir frá meiri hluta fjárln.?

Nokkuð hefur verið rætt um ábyrgð varðandi þann vanda sem við fjöllum um. Bent hefur verið á af sumum að ábyrgðin liggi hjá forstöðumönnum. Einnig hefur verið bent á að ábyrgð þeirra takmarkist af ýmsum hlutum. Hins vegar hefur líka verið bent á að ábyrgð heilbrrn. og hæstv. heilbrrh. hlýtur að vera mjög mikil. En það er einnig ljóst að ábyrgð hæstv. fjmrh. hlýtur vissulega að vera mjög mikil. Og það er nauðsynlegt fyrir okkur í fjárln. að fara yfir þann ábyrgðarþátt mjög nákvæmlega vegna þess að ég trúi því að það sé sameiginlegt markmið okkar allra þar, eins og kom svo ágætlega fram í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, að við viljum ná árangri í þeim efnum og við viljum að þessir hlutir verði bættir á komandi árum.