Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 18:07:04 (2460)

1999-12-07 18:07:04# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[18:07]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. kom inn á það í ræðu sinni að stofnanir störfuðu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og í öðru lagi nauðsyn þjónustusamninga. Ég vil taka undir það að mikil nauðsyn er á því, og það er einn af þeim þáttum sem vinna ber áfram í heilbrigðiskerfinu, að gera þjónustusamninga við stofnanir og skilgreina hlutverk þeirra. Lögin um heilbrigðisþjónustu eru mjög opin um hlutverkið. Það á að veita þá bestu þjónustu sem völ er á og því er nauðsynlegt að skilgreina með verkaskiptingu stofnana hvernig við ætlum að gera það.

Til eru æði miklar upplýsingar og undirbúningsgögn í að gera þjónustusamninga við stofnanir og við höfum lagt áherslu á, og gerum það í umræðunni um fjárlögin, að vinna áfram að því. Það er grundvallaratriði að fyrir liggi gögn um hvað hin ýmsu störf á heilbrigðisstofnunum kosta og hvaða þjónustu við ætlum að veita þar. Það er grundvöllur þess að við getum uppfyllt skilyrði laganna um heilbrigðisþjónustu á viðunandi hátt og séum ekki í þeim dansi sem við höfum því miður verið í síðustu árin um fjárframlög til þessara stofnana.