Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 18:11:08 (2463)

1999-12-07 18:11:08# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GIG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[18:11]

Gunnar Ingi Gunnarsson:

Herra forseti. Hallarekstur sjúkrastofnana hér á landi er hefðbundinn. Það eina sem virkilega sker sig úr núna er að hallinn er meiri en áður hefur þekkst. Við erum því að tala um gamlan, þekktan vanda sem hefur aukist. Ef við ætlum að leysa vandann þá verðum við að skilgreina hann og við verðum að vera klár á því að skilgreiningin sé rétt, annars getum við ekki fundið viðunandi lausn.

Það má segja að ég hafi kynnst þessari hlið rekstrarvanda heilbrigðisþjónustunnar fyrst þegar ég var í stjórn Ríkisspítala í nokkur ár og ég ætla að leyfa mér að segja frá minni reynslu og lýsa því hvernig ég upplifði það og upplifi enn hvernig hallarekstur sjúkrastofnana í heilbrigðisþjónustunni kemur til.

Í fyrsta lagi, árum saman á þrengingartímum var fyrirskipaður flatur niðurskurður á sjúkrastofnunum heilbrigðisþjónustunnar um allt land. Þá var ekkert spurt að því hvað færi fram á stofnununum né hvernig starfsemin væri rekin heldur kom fyrirskipun um að skera niður þjónustuna eða reksturinn og bæði starfsfólk og stjórnendur þurftu að laga sig að því. Þetta var ekki bara einu sinni, eitt ár, heldur ár eftir ár. Og ég varð vitni að því á þessum tíma hversu erfitt það var að reka heilbrigðisþjónustu undir þessum formerkjum og áttaði mig fljótlega á því að þetta fyrirkomulag fjármögnunar, skipulags og rekstrar gat ekki gengið upp. Þess vegna hefur ekki neitt af því sem hér hefur verið rætt komið mér á óvart.

Flatur niðurskurður á þrengingartímum gerir ekkert annað en að skapa uppsafnað vandamál sem verður að taka á síðar meir. Og það sem við erum að horfa á núna er afleiðing af ástandi sem ríkti á því tímabili ásamt ýmsu öðru. Það er því fyrst og fremst skýringin á því hvers vegna hallinn er óvenju mikill fyrir utan annað sem ég kem inn á á eftir.

[18:15]

Rétt er að minna hv. þingmenn á að árum saman var rætt um það sem stórvandamál á sjúkrastofnunum á Íslandi að laun væru það lág, m.a. laun hjúkrunarfræðinga, að ekki væri hægt að manna stofnanir og þar með ekki hægt að reka þær. Smátt og smátt skapaðist sá skilningur milli fagráðuneytis og fjmrn. að hækka þyrfti laun verulega. Það leggst ofan á uppsafnaðan vanda vegna niðurskurðar ár eftir ár.

Við alla þessa vandamálasúpu bætist stjórnskipulagsvandi á sjúkrastofnunum sem á einnig sögu langt aftur í tímann. Eins og hv. þingmenn vita kannski þá var það praktíserað að þrír voru við stjórnvölinn samkvæmt lögum, læknir, hjúkrunarfræðingur og framkvæmdastjóri. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig gengið hefur að skipuleggja stjórnsýslu í rekstri með því að hafa þrjá hausa út um gluggann á stýrishúsinu, gefandi fyrirskipanir. Auðvitað hefur sú stjórnsýsla aldrei gengið upp. Innri skipulags- og stjórnunarvandi á sjúkrastofnunum á Íslandi er þekkt staðreynd.

Auk þess hefur fjármögnunarfyrirkomulagið, eins og hér hefur áður verið rætt um, einnig útilokað það að reka sjúkrastofnanir á Íslandi með vitrænum hætti. Ég get nefnt dæmi um það. Ég varð vitni að því æ ofan í æ á Ríkisspítölunum að ekki var hægt að koma á hagræðingu á skurðdeildum með því að auka afköst, fjölga aðgerðum og minnka þannig kostnað við sérhverja aðgerð. Hvers vegna ekki? Vegna þess að einnota hlutir og ýmislegt annað fóru út fyrir þann ramma sem settur hafði verið. Það skapaði rekstrarhalla á þeirri einingu þannig að menn völdu oftast þann kostinn að hafa framleiðnina á deildinni óbreytta til að auka ekki kostnað t.d. af einnota vörum.

Niðurstaðan er auðvitað sú, og það var augljóst fyrir mörgum árum síðan, að nýtt fyrirkomulag þarf fyrir fjármögnun þessara stofnana. Þess vegna er fagnaðarefni að nú skuli loks vera rætt um að gera það sem hefði átt að gera fyrir mörgum árum, að gera þjónustusamning þar sem fyrir fram er skilgreint hverju stofnunin á að skila, hvers konar þjónustu, hve mikilli o.fl. í þeim dúr. Þannig er hægt að hafa eins klárt og mögulegt er í svona efnum hvað stofnanirnar eigi að kaupa inn á ársgrundvelli, fyrir ákveðna upphæð.

Í ofanálag við öll þessi atriði þá hef ég orðið vitni að því hvernig fjmrn. hefur í raun orpið vandræðaeggjum sínum í hreiður heilbrigðisþjónustunnar, skilið þau eftir og látið heilbrigðisþjónustuna sitja uppi með kostnaðarauka óbættan, t.d. að gera samninga við starfsfólk um launahækkanir sem ekki eru bættir. Þetta hefur verið praktíserað árum saman. Ég hef fylgst með því og séð hvernig sjúkrastofnanir hafa verið látnar sitja uppi með vandamál sem skapast hafa á öðrum stöðum og þær hafa í raun ekki borið ábyrgð á. Það er ekki fyrr en hið nýja form kemur til, að samningarnir eru færðir út í sjúkrastofnanirnar að þær bera einhverja ábyrgð með fjmrn. á þessum hluta vandans.

Launamálin eru hluti af vandanum sem hér er til umræðu. Hægri hönd hæstv. fjmrh. gerir samning við starfsfólkið um kaup. Ef samningurinn er mistök eða annað kemur upp sem ekki hefði átt að gerast þá liggur ábyrgðin náttúrlega hjá fjmrn. Það er þó ekki aðalatriði málsins. Ég held að aðalatriðið sé uppsafnaður vandi í launa- og rekstrarmálum sem menn sáu ekki fyrir þegar samningar voru gerðir. Kostnaðaraukinn varð meiri heldur en menn áttu von á og því fór sem fór.

Hér hefur verið rætt um, m.a. kom hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson inn á það, að hægt þyrfti að vera að mæla framleiðni stofnananna. Mig langar að taka dæmi um hversu fráleitt fyrirkomulagið er í rekstri heilbrigðisþjónustunnar þar sem menn telja það þó einna skást. Það er í heilsugæslunni. Í framhaldi af spurningunni um mælingu þá getur heilsugæslulæknir, eins og fyrirkomulagið er núna, virst vinna heilmikið starf með því að taka á móti mörgum sjúklingum á klukkutíma. Hann getur látið þá fara í gegn með miklum hraða þannig að þeir fari annað og stofni til kostnaðar annars staðar í kerfinu. Enginn getur fylgst með eða mælt þetta, m.a vegna þess að það má ekki koma á tilvísanakerfi. Þó er það eina leiðin til að fylgjast með hvort heilsugæslan skili í raun einhverju á staðnum.

Menn hafa ekki viljað leita þessara lausna vegna andstöðu innan læknastéttarinnar og víðar. Hingað til hafa menn ekki fengist til að ræða hvernig skipuleggja eigi hlutina, hvernig eigi að haga rekstrarfyrirkomulaginu þannig að þjónustan, sem í heild sinni er viðunandi á Íslandi, verði hagkvæm og starfsfólk í heilbrigðisgeiranum uni við kjör sín. Í staðinn fyrir það að vinna skynsamlega hefur hingað til, eins og ég hef rakið, starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar fengið skömm í hattinn frá ráðuneytum með reglulegu millibili fyrir að hlutirnir gangi illa, hallarekstur sé árlegur viðburður og annað í þeim dúr. Þeir sem skila mikilli vinnu á þessum stofnunum hafa þó ekki fengið annað en skömm í hattinn fyrir.

Fyrir utan þetta langar mig að minnast á brtt. við frv. til fjáraukalaga sem liggja hér fyrir. Sérstaklega vil ég ræða um hugmynd sem mér finnst vera fráleit. Menn láta sér detta það í hug að lækka tekjutryggingarþátt ellilífeyrisþega um 50 milljónir. Ég verð að segja eins og er, hv. þingmenn, að ég trúði ekki mínum augum þegar ég sá þetta. Umræðan í þjóðfélaginu hefur undanfarið einmitt snúist um fólkið sem byggir afkomu sína á almannatryggingakerfinu, sem hefur í hámark 68 þús. kr. á mánuði í ellilífeyri eins og flestir vita.

Það var boðið upp á 7% hækkun á grunnlífeyri fyrir nokkrum missirum. Látið var í það skína að þetta væri til þess að bæta hag þessa fólks. Ef við skoðum þann þátt kemur í ljós að 7% hækkun varð á u.þ.b. 24% hluta heildargreiðslna til ellilífeyrisþega. Upphæðin hækkaði þá um þúsund kr. og þegar skatturinn hafði höndlað þessar þúsund kr. þá sat fólk uppi með um 318 kr. nettó. Það var sú hækkun sem ríkisstjórnin hæstv. bauð ellilífeyris- og örorkuþegum hér á landi. Nú er ætlunin að draga úr þessum greiðslum á sama tíma og við vitum að hækka þarf heildargreiðslur til þessa fólks um 18--20% til að fylgja þeim breytingum sem orðið hafa í launaþróun hér á landi. Til þess að ná þeirri tölu þyrfti að hækka tekjutryggingarþáttinn um 50% eins og við höfum reyndar lagt til og fram kemur í gögnum sem dreift hefur verið hér á hinu háa Alþingi. Það þurfum við að gera en ekki hitt að höggva í þennan hluta velferðarkerfisins. Hann má ekki við því og að mínu mati kemur það ekki til greina.

Staða lífeyrismála á Íslandi er góð á heildina er litið, afskaplega góð. Það byggist ekki á því að almannatryggingakerfið sé gott. Hið góða er að finna í lífeyrissjóðamálum landsmanna. Það byggist annars vegar á aldursskiptingunni hér á landi og hins vegar starfsgreinalífeyrissjóðakerfinu sem kemur til bjargar í því lamaða almannatryggingakerfi sem við höfum.

Ef við lítum á það sem einkennir þessi mál hér á landi þá getum við vel skilið það hvers vegna þessir erfiðleikar eru. Það hefur komið fram áður á hinu háa Alþingi í dag. Í fyrsta lagi verjum við minnstum hluta þjóðartekna í velferðarmál í samanburði við viðmiðunarþjóðirnar. Það ætti öllum að vera ljóst. Samkvæmt því er á Íslandi lágur lífeyrir í almannatryggingakerfinu. Það ættu allir að geta viðurkennt og auk þess eru tekjutengingarnar mjög áberandi í íslenska kerfinu.

Einnig er ljóst að stuðningur við barnafjölskyldur á Íslandi er minni en annars staðar á Norðurlöndum. Við vitum líka að sjúkradagpeningar hér á landi eru u.þ.b. 20% af verkamannalaunum. Í samanburðarlöndunum eru það 70--100% (Gripið fram í: Í alvöru?) af verkamannalaunum. Í því tilliti er fátækt meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum þegar mælt er með viðurkenndum stöðlum.

Ef menn telja sig af einhverjum ástæðum hafa eitthvað afgangs undir liðnum fyrir tekjutryggingu ellilífeyrisþega þá höfum við nóg við þann pening að gera annars staðar undir þeim lið. Því er alveg fráleitt að hafa hlutina með þessu móti.

[18:30]

Herra forseti. Eins og ég kom inn á áðan ætla ég að segja frá því að lokum að sá sem hér stendur og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hafa lagt fram fyrstu tillögu sína í þá átt að betrumbæta stöðu ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega hér á landi með því einmitt að bæta þeim þann missi sem þeir hafa orðið fyrir undanfarin ár. Þeir hafa farið alveg á skjön við hið svokallaða góðæri. Til þess hefur okkur reiknast til að þurfi að hækka tekjutryggingarþáttinn um 4.565 milljónir svo að þessir hópar nái jöfnuði við aðra í þjóðfélaginu. Þá fyrst væri hægt að segja að þetta fólk hafi fengið að njóta svipaðra ávaxta af því sem hefur gerst í hagkerfi landsins eins og aðrir. Í framhaldi af þessari þáltill. munum við leggja fram tillögur um það hvernig að þessu verði staðið. En auk þess munum við leggja til að sjúkradagpeningakerfinu verði þannig breytt hér á landi að fyrirkomulagið standi undir nafni svo að fólk geti yfirleitt lifað af sjúkradagpeningum í stað þess að sjúkradagpeningagreiðslur verði einhvers konar táknræn summa eins og er og hefur verið.