Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 18:41:35 (2468)

1999-12-07 18:41:35# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[18:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Umræðan um frv. til fjáraukalaga er þegar orðin allítarleg og ég ætla ekki að hafa mjög langt mál um þetta frv. en víkja að örfáum atriðum þó. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að auka útgjöld ríkisins um tæpa 8 milljarða kr. eða 7,9 milljarða frá því sem ráðgert var í fjárlögum fyrir þetta ár.

Drýgstur hluti þessa fjár rennur til heilbrigðiskerfisins en skiptingin er að öðru leyti sú að samkvæmt frv. eins og það var lagt fyrir var gert ráð fyrir 5,5 milljarða aukningu en síðan komu hækkunartillögur frá fjárln. til viðbótar upp á 2,4 milljarða. Menn hafa nokkuð deilt um það hvort þetta hafi verið fyrirséð á sínum tíma og ég held að það sé kannski erfitt að alhæfa um það efni. Menn hafa einnig tengt umræðu um þetta frv. vangaveltum um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar almennt. Komið hefur fram gagnrýni á að hún hafi ekki verið nægilega ábyrg, hún hafi gripið til aðgerða sem hafi verið þensluhvetjandi, orðið til þess að ofhita efnahagskerfið. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson vitnaði í álit frá minni hluta fjárln. hvað þetta snertir og vék sérstaklega að eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

,,Lækkanir á tekjuskatti leiða til þess að almenningur hefur að öðru jöfnu meira fé til ráðstöfunar. Þar af leiðandi eykur tekjuskattslækkun kaupmátt og þar með einkaneyslu. Sé tekjuskattsstigið lækkað í miklu góðæri herðir það á þessu ferli. Viðskiptahallinn verður þá meiri og verðbólguþrýstingur líka. Ábyrg stjórnvöld lækka því ekki tekjuskatt hjá öllum þorra landsmanna á tímum mikils góðæris og vaxandi viðskiptahalla.``

Þetta var tilvitnun sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði að umtalsefni í ræðu sinni. Hann var í reynd ekki að gagnrýna það sem hér var sagt en vakti athygli á því að þessar ráðstafanir hefðu verið gerðar í samningum við verkalýðshreyfinguna. Ég sé ástæðu til að leiðrétta þetta.

[18:45]

Það er alveg rétt að tillögur þessa efnis komu fram frá hluta verkalýðshreyfingarinnar, nokkrum stórum samböndum, en þegar sest var yfir málin og menn höfðu mótað tillögur sínar þar á bæ innan Alþýðusambandins, innan BSRB, þá voru þarna uppi aðrar áherslur. Menn vildu fara aðrar leiðir. Sú stefna verkalýðshreyfingarinnar hefur verið áréttuð í ítarlegri skýrslu sem nýlega var gefin út af hálfu ASÍ og BSRB.

Sú leið sem verkalýðshreyfingin vildi skoða var að auka þrepaskiptingu innan tekjuskattskerfisins. Menn vildu bæta hag barnafólks með því að láta meira fjármagn renna til barnabóta og menn vildu að skattleysismörk yrðu látin fylgja launaþróun. Þetta eru þær áherslur sem koma fram í umræddri skýrslu og þær áherslur voru einnig uppi á þeim tíma og ástæða til að leiðrétta að þetta var ekki gert í kjarasamningum. Þar voru hins vegar kröfur sem höfðu komið fram hjá ákveðnum samböndum innan Alþýðusambandsins en verkalýðshreyfingin stóð ekki öll að þeim. Þær voru aðrar en hér er getið um.

Hvers vegna hafa menn áhyggjur af þenslu í efnahagskerfinu? Það er augljóst að fyrir það fólk sem er bundið á kauptaxta og nýtur ekki launaskriðs, þá segir það sig sjálft að auknar hækkanir í þjóðfélaginu, hækkun á vöru og þjónustu veldur kjararýrnun hjá því. Þeir einstaklingar og hópar sem njóta ekki launaskriðs eru jafnframt lágtekjuhóparnir í þjóðfélaginu þannig að þetta er varasamt að því leyti. Annað sem menn gagnrýna varðandi þensluna er að ekki sé til innstæða fyrir því sem við erum að eyða og þess vegna hafa menn verið að vara við hinum mikla viðskiptahalla sem hefur hrjáð þjóðarbúið og búskapinn á undanförnum tveimur árum sérstaklega og nemur um 30 milljörðum á ári.

Varðandi þá spurningu hvað hafi verið fyrirséð og hvað ekki, þá er náttúrlega eitt sem var augljóslega fyrirséð og það var að breytingar sem ráðist var í á húsnæðiskerfinu mundu valda stóraukinni eftirspurn eftir lánum. Staðreyndin er sú að greiðslumati var breytt í húsnæðiskerfinu þannig að fleiri áttu kost á að fá húsbréfalán en áður, enda hefur komið á daginn að samþykktar umsóknir um lán til kaupa á notuðum íbúðum eru nú 45% fleiri en á sama tíma í fyrra og 27% fleiri til nýbygginga. Afleiðingin af þessu er sú að útlán húsbréfadeildar fóru ríflega 7.000 millj. kr. fram úr heimildum fjárlaga. Þetta var allt saman fyrirséð.

Það var hugsanlega einnig fyrir séð að nokkru leyti að tekjur ríkissjóðs kynnu að vera heldur rýmri en menn höfðu gert ráð fyrir en ég held að fæsta hefði grunað þær yrðu 10 milljörðum hærri, þær yrðu svo miklu hærri. En það voru þó nokkrar líkur til að við værum að stefna inn í aukna þenslu.

Þá kemur að því sem margir hafa verið að velta fyrir sér í þessari umræðu og það eru útgjöldin til heilbrigðismála og þá sérstaklega launaþáttinn þar. Staðreyndin er sú að áður en við komum verðbólgunni niður í það stig sem hún hefur verið á undanförnum árum, þá var ríkið og sveitarfélög í stakk búin til þess að mæta þenslu á almennum markaði með samningskerfi sem lengi hafði verið við lýði. Þá var samið í heildarsamningum um kaup og kjör. Síðan fengu einstök aðildarfélög innan heildarsamtaka færi á því að gera sérkjarasamninga en auk þess voru starfandi svokallaðar samstarfsnefndir sem voru að taka á launamynduninni öllum stundum. Þannig var það. Þannig gat ríki og sveitarfélög brugðist við þegar þensla var á markaðnum. Við skulum ekki gleyma þessu. Það er ekki einvörðungu hjá ríki og sveitarfélögum sem þensla er á launamarkaði, sem er launaskrið. Það er mikið launaskrið á almennum markaði. Menn einblína um of að mínum dómi á það sem er að gerast hjá ríkinu í þessu efni. Og stundum þegar við viljum sýna ábyrgð, sem við eigum að gera, þá gleymum við því sem er að gerast á almennum markaði.

Við tókum ákvörðun um það á Alþingi að fresta nýbyggingu Alþingishússins. Ég studdi það fyrir mitt leyti þótt ég sjái eftir því að geta ekki fengið fyrr bætta aðstöðu fyrir fatlaða sem mundi fylgja þessari nýbyggingu. En ég studdi þetta. En á sama tíma var verið að ráðast í stórstækkun Kringlunnar og það á að fara að byggja í Smáranum og þar fram eftir götunum. Þessu viljum við stundum gleyma þegar við erum að skoða þjóðarbúið og þá þróun sem á sér stað innan þess.

En það sem ég vildi sagt hafa er að fyrr á tíð þegar verðbólga var viðvarandi og miklu meiri, þá hafði ríki og sveitarfélög þessa mekanisma til að laga launakerfin hjá sér að því sem var að gerast á markaði. Síðan er þessu breytt. Þessu er breytt þegar verðbólgunni er náð niður og þá er allt sett inn í frystikisturnar. Það er út úr þessu kerfi sem menn ætla síðan að reyna að losa sig með svokölluðum aðlögunarnefndum og aðlögunarsamningum. Menn ætluðu hins vegar að ganga lengra í því efni. Menn ætluðu og ætla að innleiða hjá hinu opinbera markaðskerfi, markaðshugsun á öllum sviðum. Þessar breytingar sem voru gerðar á launakerfunum og öllu skipulagi hins opinbera hafa verið mjög umdeildar og voru mjög umdeildar t.d. innan verkalýðshreyfingarinnar. Þær hafa verið umdeildar innan stærstu heildarsamtaka opinberra starfsmanna, innan BHM, innan BSRB. Það hafa verið skiptar skoðanir um ágæti þessa.

Ástæðan fyrir því að ég var andvígur þessum breytingum var sú að ég óttaðist að þetta kerfi eins og það er hugsað mundi ganga upp. Það hefur ekki alveg gengið upp. Út á það gengur gagnrýnin. Ég óttaðist að kerfið mundi ganga upp vegna þess að kerfisbreytingarnar eru hugsaðar sem eins konar niðurskurðarhnífur. Hugsunin er sú að sett er ákveðin fjárupphæð til stofnunarinnar og innan hennar er síðan tekin ákvörðun um launamyndun. Þar með er kominn þrýstingur til fækkunar starfsfólks vegna þess að ef tekst að hagræða og fækka starfsfólki, þá er meira á milli handanna til launahækkana fyrir þá sem eftir eru starfandi.

Það var annað sem ég hef óttast líka og hefur gengið eftir. Það er að þeir sem hafa ,,markaðsvirði`` innan stofnunarinnar, þeir sem hafa sterka stöðu á markaði njóta þessa kerfis í ríkari mæli en hinir sem hafa ekki slíka sterka stöðu. Þetta er einnig að breytast í þessa veru.

Annað sem við sem gagnrýndum þetta vöruðum líka við og tengist þessu síðasta atriði er að launamunur á milli kynja mundi aukast. Einnig þetta er að ganga eftir. Þess vegna hefur manni þótt það stundum kostulegt þegar ráðist er í kerfisbreytingar sem sannanlega, sýnilega og augljóslega munu valda auknum launamun kynjanna, allt samþykkt með miklum ,,bravör`` og síðan er tekin á dagskrá umræða um hvernig draga eigi úr launamun kynjanna og að innleiða þurfi mikil prógrömm í því skyni. Menn eru því oft í mótsögn við sjálfa sig.

Mér fannst hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson flytja mjög góða ræðu og ég er mjög sammála honum um margt. Ég heyrði líka á honum að hann er andvígur því að innleiða um of markaðsmekanisma í velferðarþjónustuna. Hann segir það og ég trúi því. Hann talar ekki á þeim nótum að hann vilji innleiða samkeppni þar innan. En hann vill engu að síður innleiða markaðslögmálin í einhverjum mæli inn í velferðarstofnanir. Sama var uppi í orðum hæstv. fjmrh. í gær. Hann sagðist vilja, eða það lá í orðum hans, varðveita þá hugsun sem við höfum reist velferðarþjónustu okkar á og sagði að það væri sýnilegt, að gefnu tilefni, að þeir sem hefðu gert skýrslu OECD um íslensk efnahagsmál 1999--2000, og kom til umræðu á Alþingi í gær, hefðu ekki mikið innsæi í íslenskan veruleika. Mér heyrðist á hæstv. ráðherra að hann vildi segja sig frá þessari skýrslu eða þeirri hugsun sem þar kom fram. En engu að síður þrátt fyrir allar þessar yfirlýsingar, yfirlýsingar hæstv. fjmrh. og kristlegar yfirlýsingar hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, þá er verið að framkvæma í aðra átt. Það er þetta sem mér finnst svo undarlegt þegar menn hætta að kannast við eigin verk.

Ég ætla aðeins að rifja upp hvað stóð í skýrslu OECD og ég gerði að umtalsefni í ræðustól í gær. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Hægt væri að takmarka kostnað ríkissjóðs vegna umönnunar aldraðra með því að leggja á hærri þjónustugjöld.`` Síðan segir: ,,Svigrúm er til að auka þjónustugjöld með því að lækka þann hluta af lífeyrisgreiðslum sem einstaklingar á hjúkrunarheimilum halda eftir. En í ljósi eigna aldraðra ættu stjórnvöld að íhuga að fara fram á að hluti þeirra eigna verði notaður til að greiða fyrir dvölina á hjúkrunarheimilum þótt ekki væri nema í því formi að safna skuld við ríkissjóð sem yrði greidd að lokum. Í þessu ljósi yrði að setja reglur sem takmörkuðu hættuna á því að einstaklingar neyttu eigna sinna snemma eða ánöfnuðu þeim til barna sinna.``

Þetta segir í skýrslunni. Ég trúi því mjög vel að hvorki hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson né hæstv. ráðherra Geir H. Haarde vilji ganga svona langt. Ég trúi því vel að þeir vilji ekki setja slíkar reglur sem skerða mannréttindi aldraðs fólks og koma í veg fyrir að aldrað fólk geti ráðstafað eignum sínum að vild. Ég trúi því vel að ríkisstjórnin vilji ekki ganga svo langt eins og þessi frjálshyggjuhópur OECD. En það er engu að síður hjá þessum hópi OECD sem ríkisstjórnin hefur fengið hugmyndir sínar um kerfisbreytingar á undanförnum árum í launakerfunum, í skipulagi hins opinbera. Þar hafa reglurnar verið settar. Þegar við síðan förum að skoða hvað ríkisstjórnin er að gera í reynd, þá er hún í alvöru að bjóða út elliheimilin. Það er Securitas og gott ef ekki Ístak einnig sem búið er að bjóða í að reisa og reka elliheimili hér á landi. Slíkir aðilar eiga að reka sjúkrastofnanir og öldrunarheimili. Það er það sem þessi ríkisstjórn er að gera og segist síðan starfa í kristilegum og vestfirskum anda og vilji ekki ameríkansera kerfið. (Gripið fram í: Germanskir menn.) Þetta er eflaust frá Brussel og víðar ættað en þetta er það sem er að gerast í alvöru.

Eins og ég hef áður rakið hér segir um þetta fyrirkomulag, einkaframkvæmdina, í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

[19:00]

,,Leggja ber áherslu á að sem stærstur hluti tekna rekstraraðila sé fenginn með notendagjöldum.``

Hvað þýðir það? Það þýðir sjúkragjöld og aukin gjöld fyrir aldraða á elliheimilum væntanlega. Það er verið að tala um einkaframkvæmd. Einkaframkvæmdin er komin til framkvæmda í einum skóla í Hafnarfirði, iðnskólanum, og hún er núna í bígerð með elliheimilin. Það sem ríkisstjórnin er að framkvæma og segja að hún ætli að gera er nákvæmlega það sama og stendur í skýrslu OECD, hugsanlega að undanskildu því að sett verði lög sem skerða mannréttindi aldraðs fólks til að ráðstafa eignum sínum. Þetta er það sem ríkisstjórnin er að gera. Slíkar kerfisbreytingar þurfum við að ræða. Ég er búinn að halda uppi umræðu um þetta í mörg missiri, mörg ár. Hæstv. fjmrh. finnst nóg um og segir að menn séu komnir með þetta á heilann. En þetta er hin stóra pólitíska barátta í samfélagi okkar. Þetta er sjálfur grundvöllurinn að því hvernig við ætlum að skipuleggja samfélagið. Og það er í þessum anda sem ríkisstjórnin starfar, nákvæmlega. Við ræðum núna afleiðingar þeirrar stefnu. Við erum að ræða hvaða afleiðingar það hefur haft að breyta húsnæðiskerfinu. Við erum að ræða hvaða afleiðingar það hefur haft að fara með allt húsnæðiskerfið út á hinn frjálsa markað. Í stað þess að verja fjármunum og beina fjármagni inn í félagslegt húsnæði, þá er því beint núna í auknum mæli út á hinn frjálsa markað. Eitt af því sem er til umfjöllunar í þessum fjáraukalögum er einmitt þetta, að auka lánsheimild Íbúðalánasjóðs um 7.000 millj. kr. Þetta eru afleiðingar af þeirri stefnu.

Hér á sínum tíma var um þetta rætt nákvæmlega í þessu ljósi, en öllu alltaf vísað á bug. Núna verða menn bara reiðir þegar verið er að bera upp á þá að þeir fylgi þessum ráðleggingum OECD. Þeir menn þekkja ekki til innviða íslensks samfélags, er viðkvæðið. En síðan eru þeir sjálfir að framkvæma þessa stefnu hér. Þeir eru að bjóða út elliheimilin og boða aukin gjöld á aldraða fólkið. Það eru þeir að gera. Og mér finnst það hugleysi að vilja ekki kannast við eigin verk og eigin stefnu heldur er viðkvæðið alltaf hið sama. Skref fyrir skref, að segja ósatt um hvert förinni er heitið. Það var gert þegar síminn var gerður að hlutafélagi á sínum tíma, það átti aldrei að selja hann. Að sjálfsögðu átti ekki að selja hann. Það átti ekki að selja bankana heldur.

Það er verið að boða til fundar í kvöld til að reyna að rífa úr nefnd frv. um sölu á bönkunum. Það eru þessi ósannindi, það er að vilja ekki og þora ekki að kannast við eigin verk og eigin stefnu sem mér finnst vesælast í stefnu þessarar ríkisstjórnar.