Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 19:09:14 (2471)

1999-12-07 19:09:14# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[19:09]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Bænagerðir koma sér yfirleitt vel. Ríkisvaldið stendur fyrir því að fjármagna heilbrigðiskerfið með almennum sköttum. Það er sú stefna sem er við lýði á Norðurlöndum og mestmegnis um alla Vestur-Evrópu. Það eru engar deilur um hvernig við fjármögnum heilbrigðiskerfið. Það er enginn að halda því fram að við ætlum að fara að breyta því eða gera það öðruvísi.

Það að koma einhverri starfsemi inn í viðskiptalegt umhverfi er engin breyting á slíkri stefnu. Auðvitað reynum við að framkvæma þjónustuna í heilbrigðiskerfinu á sem hagkvæmastan hátt rétt eins og hverja aðra þjónustu.

Það er mjög mikill misskilningur hjá hv. þm. að biðja þurfi fyrir mér eða ég sé að gera mig sekan um fávisku um það sem er að gerast. Ég held að hann eigi heldur að klóra í sínum eigin kolli og átta sig á því að þetta eru hin eðlilegu viðbrögð í öllum samfélögum þ.e. að reyna að veita þá þjónustu á eins ódýran hátt og kostur er, enda gerum við líka kröfur um hvaða þjónustustig þetta er. Við erum að gera faglegar kröfur til heilbrigðisþjónustunnar og félagsþjónustunnar, við erum að gera það á öllum sviðum. Það hefur aldrei staðið til að gefa neitt eftir í því. Síðan hrópa menn hér eitthvað um, mér heyrðist hv. þm. segja Securitas, hvort þeir væru einhverjir vondir menn eða góðir. Það er eðlilegt og sjálfsagt að menn bjóði í ákveðin verkefni hvort sem það eru skúringar, matseld eða hvað sem það er. Það gengur í hinum vestrænu þjóðfélögum. Og fordæmingar hv. þm. á því eiga bara ekkert skylt við þetta. Við stöndum sameiginlega að því að fjármagna heilbrigðiskerfið, það er samstaða um það. Það hefur aldrei staðið til að breyta því. Það er það sem skiptir máli. Hitt er bara tilbúningur.