Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 19:11:15 (2472)

1999-12-07 19:11:15# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[19:11]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þá ætla ég að snúa mér að tilbúningnum. Hann er búinn til, sá tilbúningur, af hæstv. fjmrh. og þeirri ríkisstjórn sem hér fer með völdin og hann er á þessa leið, með leyfi forseta, við erum að fjalla um einkaframkvæmd, og heilbrigðisþjónustuna sem á að bjóða út og hefur þegar verið boðin út og skólakerfið sem á að bjóða út og hefur þegar verið boðið út. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Leggja ber áherslu á að sem stærstur hluti tekna rekstraraðila sé fenginn með notendagjöldum.``

Það er enginn að halda því fram, segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, að fjármagna eigi þetta á annan hátt en með sköttum eða frá ríki að sveitarfélögum. En hér stendur hið gagnstæða í texta sem kemur frá þeirri ríkisstjórn sem hann styður.

Nú vildi ég gjarnan að hv. þm. kæmi aftur upp (EOK: Ég hef ekki leyfi til þess.) Það er hægt að biðja um orðið. Hv. þm. er ekki búinn að tæma rétt sinn til að taka þátt í þessari umræðu. Mér finnst að hann þurfi að skýra nánar hvað hann á við þegar yfirlýsingar hans ganga þvert á það sem verið er að framkvæma og þvert á þá texta sem koma frá ríkisstjórninni um stefnu hennar í velferðarmálum og skipulagi velferðarþjónustunnar. Mér finnst að við þurfum að fá nánari skýringar á þessu frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni.