Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 19:18:54 (2474)

1999-12-07 19:18:54# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[19:18]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta hugtak ,,kostnaðarvitund sjúklinga`` er gamall kunningi frá því í byrjun þessa áratugar. Í reynd hefur verið reynt að innleiða þessa hugsun allan þennan áratug og um þetta hafa staðið miklar deilur í þjóðfélaginu. Sem betur fer tókst lengst af að hrinda þessari aðför að velferðarþjónustunni að mestu leyti. Þess vegna er staðreyndin sú, sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson bendir á, að við búum enn við trausta velferðarþjónustu og mjög gott heilbrigðiskerfi, eitt það besta í víðri veröld. Þessi heilbrigðisþjónusta er rekin á mjög hagkvæman hátt. Ég held að það hafi komið fram meira að segja í skýrslum OECD einhvern tíma að hlutfallslega fáum við meira fyrir peningana en flestar aðrar þjóðir. Það er staðreynd.

Hitt er jafnljóst að núna er verið að fara inn á þessar brautir, það er verið að boða þessar breytingar. Það er ekki aðeins verið að gera það hér á landi heldur víða annars staðar, t.d. í Bretlandi.

Hvernig skyldi standa á því --- og ég vona að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heyri til mín --- hvernig skyldi standa á því að einhver mesti aðdáandi Tonys Blair forsrh. Bretlands og formanns hins nýja breska verkamannaflokksins heitir Margrét Thatcher? Það er vegna þess að hann hefur tekið upp stefnu hennar á ýmsum sviðum, þar á meðal á þessu sviði. Það er gegn þessu sem ég er að vara. Mér er alveg sama hvað flokkarnir heita eða foringjarnir, ég vara við þessari stefnu.