Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 22:49:24 (2484)

1999-12-07 22:49:24# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[22:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. fyrir málefnalega ræðu í þessu máli. Ég ætla ekki að fara út í þau frv. sem hæstv. dómsmrh. hefur ekki enn þá mælt hér fyrir.

Ég vildi aðeins segja varðandi persónuupplýsingar að lágmarksreglur í þessu sambandi eru reglur samkvæmt Evrópusamningnum um vernd persónuupplýsinga. Það skiptir að sjálfsögðu miklu máli við meðferð málsins að fara ofan í það. En það gilda mjög strangar reglur um vernd persónuupplýsinga í Schengen-samningnum. Auk þess verður að benda á að tölvunefnd mun jafnframt koma að þessu máli. En þetta er að sjálfsögðu mál, eins og hv. þm. tók fram, sem nauðsynlegt er að hv. nefnd fari vel ofan í því að ýmis atriði þessa máls eru að sjálfsögðu yfirgripsmikil og flókin og því eðlilegt að mjög góð umræða fari fram um það í meðferð nefndarinnar.