Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 22:51:31 (2486)

1999-12-07 22:51:31# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[22:51]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessar ábendingar. Reyndar er það svo að við erum ekki enn þá komin í efnislega umræðu um frv. til laga um Schengen-upplýsingakerfið. Engu að síður finnst mér rétt að geta þess að það mál fer ásamt öðrum sem mælt verður hér fyrir til allshn. og ég vænti þess að nefndin muni fara vandlega yfir þessi frv. og gæta að þeim ákvæðum sem hv. þm. nefndi hér sérstaklega.

En ég vil taka það fram um 20. gr. sem var spurt um, þ.e. gildistökuna, að í greinargerð og skýringu við þá grein stendur, með leyfi herra forseta:

,,Fyrirhugað er að Norðurlöndin hefji þátttöku í Schengen-samstarfinu haustið 2000. Miðað við hvernig undirbúningi miðar gæti þó verið nauðsynlegt að fresta þátttökunni. Því er lagt til að ráðherra ákveði hvenær lögin öðlast gildi.``

Það er auðvitað ekkert algengt að svona gildistökuákvæði komi fram heldur er almennt miðað við ákveðna tímasetningu. Þó eru fyrir þessu ákveðin fordæmi. Ég vildi bara láta þetta koma fram hér, hæstv. forseti.