Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:08:54 (2489)

1999-12-07 23:08:54# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði mikið um áróður þeirra sem vildu fara inn í þetta samstarf og sagði að menn töluðu um ferðafrelsi. Ég vil gera athugasemdir við málflutning hv. þm. þegar hann talar um ferðafrelsi, hann talar eins og þetta hafi bara engin áhrif. Það skipti engu máli vegna þess að menn komist jú inn í löndin hvort eð er. Það er rétt, menn komast inn í löndin en menn þurfa að gera það með öðrum hætti, það tekur lengri tíma og menn verða fyrir meiri óþægindum. Það verður að hafa það með í þessu, hv. þm.

Hann talar um að ferðaþjónustan fari bara í rúst, menn tali þannig, ef við stöndum utan við þetta. En ég spyr á móti: Hver er ástæðan fyrir því að verið er að stækka flugstöðina í Zurich? Sviss er ekki með í þessu samstarfi. En í þeirri stækkun er gert ráð fyrir því að Sviss fari inn í þetta samstarf, stækkun flugstöðvarinnar er byggð með það fyrir augum að svo verði. Og hver er ástæðan fyrir því að Bretland og Írland eru komin með aðrar áherslur en áður var? Ætli það sé ekki m.a. vegna þess að þeir reikna með að vera með í þessu í framtíðinni? En þrátt fyrir það vill hv. þm. standa utan við þetta og að Ísland verði væntanlega ein Evrópuþjóða utan við þetta samstarf.

Einnig vil ég gera athugasemdir við það sem hv. þm. sagði að menn hafi samþykkt að standa að málinu að því er varðar norræna vegabréfasamstarfið --- einn fyrir alla og allir fyrir einn. Það er ekki rétt, það var aldrei samþykkt að menn hefðu þar neitunarvald. Það var gengið út frá því að ef tækist að ná viðunandi samningsniðurstöðu þá væru Norðurlandaþjóðirnar reiðubúnar að standa að því. En hv. þm. talar núna og hefur oft talað þannig áður eins og allar þjóðirnar hefðu haft þar neitunarvald.