Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:34:22 (2498)

1999-12-07 23:34:22# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:34]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að það er alltaf ágætt að hafa efasemdir um hlutina. En að mínu mati fannst mér hann hugsa þetta heldur þröngt.

Mér finnst málið snúast að verulegu leyti um það hvar við ætlum að skipa okkur í samstarfi þjóðanna. Að mínu mati er nánast ómögulegt fyrir okkur Íslendinga að standa utan við þetta samstarf, þó svo að það hafi hugsanlega einhverja galla. Ég ætla ekkert að útiloka það.

Ég hef tekið þátt í samstarfi Norðurlandanna og vegabréfasambandið sem þar hefur verið við lýði er um 40 ára gamalt og hefur verið mjög farsælt. Mér finnst að hv. þm. hafi ekki komið inn á það í ræðu sinni hvernig við Íslendingar ættum að leysa það mál ef við hefðum orðið ein Norðurlandanna utan Schengen.

Hann talaði um að veifa passa, að þetta væri bara spurning um það hvort við mundum þurfa að veifa passa eða ekki. Ég lít á þetta sem miklu víðtækara samstarf en að sýna passa. Auðvitað kostar þetta einhverja peninga og það er kannski það eina sem ég sé að gæti hugsanlega verið neikvætt. En það er ekki séð fyrir endann á því. Ég get ekki fellt mig við þá skoðun sem kemur fram hjá hv. þm. að vegna þess að þetta kosti okkur Íslendinga einhverja peninga að þá eigum við að standa utan við þetta samstarf, því að kostirnir eru svo miklu fleiri.