Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 23:38:44 (2500)

1999-12-07 23:38:44# 125. lþ. 37.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[23:38]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það eru rök gegn þessu máli að það kosti peninga, að það hafi neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs, eins og hv. þm. orðaði það, eigum við þá ekki að velta því fyrir okkur líka hvort ástæða sé til þess yfirleitt að taka þátt í samstarfi þjóðanna, hvort það borgi sig að vera að reka sendiráð í mörgum löndum ef það eru rök gegn því samstarfi að það hafi neikvæð áhrif á rekstur ríkissjóðs? Ég lít þannig á þetta mál.

Þegar hv. þm. talar um að það hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna að taka þátt í Schengen þá er ég honum algjörlega ósammála hvað það varðar. Ég tel að það hafi jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna að geta ferðast til Íslands frá nánast öllum Evrópuþjóðum án þess að eiga vegabréf. Það getur vel verið að fólki fari að finnast það nokkurt fyrirtæki að koma sér yfirleitt upp vegabréfi og margir eiga ekki slíkt.

Hv. þm. talaði um kostnað almennings. Ég tala fyrst og fremst um það sem þægindi fyrir almenning að við Íslendingar verðum með í Schengen-samstarfinu. Það eru þægindi að geta gengið um flughafnir í allri Evrópu --- eftir nokkur ár, segi ég, í allri Evrópu --- án þess að þurfa að standa í biðröðum. Það eru þægindi.

Ég fullyrði að Bretar og Írar verða einnig komnir í Schengen eftir örfá ár og eins og kom fram í orðum hæstv. utanrrh. þá eru Svisslendingar nú þegar farnir að gera ráðstafanir við uppbyggingu á sinni flughöfn sem bendir til þess að þeir reikni með að verða með í Schengen-samstarfinu.