Reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 13:52:53 (2534)

1999-12-08 13:52:53# 125. lþ. 39.2 fundur 88. mál: #A reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ekki veit ég hve mikil gæfa er fólgin í því að fiskstofnarnir hrynji en eflaust má læra af allri reynslu sem þjóðin lendir í. Vafalaust eiga þau orð sem hv. fyrirspyrjandi kom með, minn gamli lærifaðir í íslensku, rót sína að rekja í einhverjum af gullkornum íslenskra bókmennta.

Ég tek hins vegar undir með hv. fyrirspyrjanda að það er nauðsynlegt að við nýtum þann afla sem við drögum úr sjó sem allra best. Það hefur þess vegna komið til umræðu að endurskoða reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða. Hins vegar eru að störfum á vegum ráðuneytisins þrjár nefndir sem allar snerta þetta mál, bæði beint og óbeint. Það er annars vegar nefnd um stöðu fiskvinnslunnar, hins vegar nefnd um meðferð sjávarafla og í þriðja lagi nefnd sem skoðar aðstöðumun sjóvinnslu og landvinnslu. Það er því hugsanlegt og jafnvel líklegt að hjá þessum nefndum, einhverri eða öllum, komi fram einhver þau mál eða einhverjar þær hugmyndir sem leitt gætu til breytinga á reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða. Því hef ég hugsað mér að taka ekki beinlínis afstöðu til þess hvort reglugerðinni verði breytt eða hún fari í formlega endurskoðun fyrr en eitthvað liggur fyrir um störf þessara þriggja tilteknu nefnda. En ég deili í grundvallaratriðum þeim hugmyndum hv. fyrirspyrjanda að okkur beri að nýta sem allra best þann fisk sem við drögum úr sjó.