Verndun náttúruperlna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:03:45 (2541)

1999-12-08 14:03:45# 125. lþ. 39.20 fundur 202. mál: #A verndun náttúruperlna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Undanfarið hefur verið mikil umræða um náttúruperlur og hefur kastljósinu aðallega verið beint að einni þeirra, þ.e. Eyjabökkum. En við Íslendingar eigum fleiri náttúruperlur. Við eigum Þórsmörk, við eigum Landmannalaugar og margar fleiri, Gullfoss, Geysi o.s.frv. og mér finnst athyglin hafa dregist frá þessum stöðum.

Menn hafa talað um ósnortin víðerni án þess að skilgreina nákvæmlega hvað er átt við, hvort átt er við víðerni þar sem aldrei hefur stigið mannsfótur og upp koma spurningar. Hversu lengi eru ósnortin víðerni ósnortin? Ef einn maður stígur fæti á þau, eru þau þá lengur ósnortin? Er það ekki mótsögn að ætla sér að nota ósnortin víðerni til þess að laða að ferðamenn? Vegna þess að um leið og við löðum að ferðamenn eru þau ekki lengur ósnortin. Menn spyrja sig: Hvað má gera við ósnortin víðerni? Má t.d. leggja göngustíga? Má byggja göngubrýr? Má leggja vegi? Má leggja flugvelli? Má t.d. hafa rúllustiga upp fjöll ef svo bæri við? Spurningar mínar til hæstv. ráðherra eru:

1. Hvernig hyggst ráðherra vernda náttúruperlur eins og Þórsmörk, Dimmuborgir og Landmannalaugar fyrir átroðslu sívaxandi fjölda gangandi og akandi vegfarenda? Hefur verið mörkuð stefna um hvort leggja eigi göngustíga, gera tröppur upp fjöll, reisa brýr og vegi og leggja skólplagnir til að hindra varanlegar skemmdir? Og einnig hvort takmarka eigi aðgang með aðgangseyri, happdrætti eða ítölu? Ég sé reyndar ekki fleiri leiðir til þess að takmarka aðganginn.

2. Hvernig hyggst ráðherra koma í veg fyrir sjón- og hávaðamengun af umferð fólksbifreiða, jeppa, langferðabifreiða og flugvéla við og yfir náttúruperlur á hálendinu auk venjulegrar mengunar?

Í þessu sambandi vil ég geta þess að ástandið er slíkt í Þórsmörk að leiðin niður Kattarhrygg er orðin eitt svað af göngu þeirra sem fara yfir Fimmvörðuháls. Þar er ástandið þannig að um helgar á sumrin eru 3.000 manns í Básum og jeppaumferðin eins og á Laugaveginum í Reykjavík. Þar fljúga yfir flugvélar með fréttamenn og aðra sem eru að skoða náttúruna þannig að það er langt í frá að þarna sé friður og ró eins og menn eru að sækjast eftir í ósnortnu víðerni.