Verndun náttúruperlna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:15:08 (2545)

1999-12-08 14:15:08# 125. lþ. 39.20 fundur 202. mál: #A verndun náttúruperlna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:15]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka að það kom fram í máli mínu áðan að Náttúruvernd ríkisins hefur gert lauslega áætlun um þann kostnað sem við þurfum að fara í til þess að viðhalda og vernda okkar fjölförnu ferðamannastaði. Ég nefndi töluna 400 millj. Ég vil ítreka að þetta er lausleg áætlun. En það er nefnd á vegum okkar sem í eru fulltrúar Náttúruverndar ríkisins, Vegagerðar ríkisins og Ferðamálaráðs. Hún er að skoða þessi mál mjög náið núna. Hún er að fara yfir öll svæði landsins og reyna að verðleggja hvaða brýnustu úrbóta er þörf til þess að mæta sívaxandi átroðningi ferðamanna. Stefnumótunin er því í fullum gangi. Ég vænti þess að fá þessa skýrslu í hendur vonandi bráðlega þannig að hægt verði að ákveða næstu skref.

Það er rétt sem hér var dregið fram að þær 15 millj. sem eru í ákveðnum lið fjárlagafrv. og eiga að renna til fjölfarinna staða eða friðaðra svæða duga engan veginn til þess að sinna þessu til langs tíma, alls ekki. Það er ekki upp í nös á ketti. En ég bíð einnig eftir tillögum frá þeirri nefnd sem er að skoða það og ég nefndi það í fyrra svari mínu að ég sé ekki fyrir mér að menn girði af svæði á hálendinu eða á fjölsóttum ferðamannastöðum til þess að innheimta gjald. Ég hefði gjarnan viljað sjá menn taka inn einhvers konar þjónustugjald af ferðamönnum sem fara hér í gegn, þ.e. almennt gjald. Og það mun hlaupa á miklu hærri upphæðum sem vonandi geta komið til mós við þessi hundruð millj. sem við þurfum að setja í fjölfarna ferðamannastaði. Ég sé ekki fyrir mér að við takmörkum aðgengi að ferðamannastöðum með gjaldtöku. Ég vil ekki sjá svimandi háar upphæðir í gangi þannig að menn geti ekki komist að þessum svæðum nema borga mjög háar upphæðir. Ég sé ekki heldur fyrir mér neitt happdrætti. Ég held að við séum alls ekki komin að því stigi að átroðningurinn sé svo mikill að menn þurfi að velta fyrir sér slíkum leiðum.