Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:26:50 (2549)

1999-12-08 14:26:50# 125. lþ. 39.11 fundur 167. mál: #A kynferðisleg misnotkun á börnum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en ég get ekki annað sagt en að þau ollu mér nokkrum vonbrigðum. Ég taldi að í ljósi þessa dóms og þeirrar staðreyndar sem við höfum fyrir framan okkur, að ekki nema 10% þeirra mála sem kærð eru koma til kasta kerfisins, að ráðherrann gæti tekið undir það að fara þyrfti í heildarendurskoðun á þessum málum í kerfinu alveg frá því að kæra berst og þar til dómsniðurstaða liggur fyrir, að fara þyrfti yfir allan þennan feril til að sjá úr hverju þurfi að bæta vegna þess að það er ljóst að mikil brotalöm er í réttarkerfinu og alveg bráðnauðsynlegt reyndar að samþykkja þá till. sem liggur fyrir til þál. um bætta stöðu þolenda kynferðisbrota.

Hæstv. síðasti dómsmrh. var miklu afdráttarlausari en núv. dómsmrh. að því er varðar refsirammann. Núna er lágmarksrefsing í nauðgunarmálum en það er engin lágmarksrefsing þegar um er að ræða kynferðisbrot gegn börnum. Þarna er auðvitað mikið misræmi á ferðinni og bæði í Noregi og Svíþjóð er lágmarksrefsing eitt og tvö ár. Ráðherrann vísar bara á framtíðina og einhverja nefnd sem muni skila af sér einhvern tíma í framtíðinni hvað þetta varðar. Ég var að leita eftir afstöðu hæstv. ráðherrans sjálfs til þessa máls. Auðvitað var ég ekki að ætlast til þess að ráðherrann mundi tjá sig um einstök atriði þessa sýknudóms og auðvitað vita allir, og þarf ekki að taka það fram, að dómi verður ekki skotið til framkvæmdarvaldsins. Engu að síður er mjög nauðsynlegt að endurskoða alla starfshætti dómstólanna. Og þetta með munnlegu sönnunarfærsluna og að það sé skylda að kveðja til meðdómendur með sérfræðikunnáttu á sviði kynferðisbrota, ætti auðvitað að vera alveg sjálfsagt mál. Ég var að leita eftir skoðun ráðherrans á því máli en ekki að biðja ráðherrann að fara efnislega ofan í skoðun hæstv. ráðherra dómnum sjálfum. Þess vegna verð ég að segja að svörin valda mér ákveðnum vonbrigðum af því að ég álít að hér sé svo stórt mál á ferðinni að það krefjist tafarlausra úrbóta, en sé ekki ávísað á framtíðina eins og ráðherrann gerði.