Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:29:17 (2550)

1999-12-08 14:29:17# 125. lþ. 39.11 fundur 167. mál: #A kynferðisleg misnotkun á börnum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. má ég til með að upplýsa að ég var einmitt formaður allshn. þegar fyrir þá nefnd kom stjfrv. um breytingu á þessum kafla almennra hegningarlaga þar sem m.a. er fjallað um nauðgunarákvæðið. Þar var gert ráð fyrir að lágmarksrefsing yrði felld úr lögunum. Ég var ósammála því ásamt öðrum nefndarmönnum þannig að við breyttum stjfrv. Þess vegna er þetta ákvæði enn þá við lýði, hv. þm.

Engum blöðum er hins vegar um það að fletta að hér í dag er fjallað um einn vandasamasta málaflokk sem íslenskir dómstólar fást við. Hér er um að ræða alvarleg afbrot sem eiga sér stað fyrir luktum dyrum og koma því miður oftast ekki til kasta dómstóla fyrr en mörgum árum eftir að afbrotin hafa átt sér stað. Það segir sig sjálft að sönnunarfærsla getur af þessum sökum verið vandkvæðum bundin. Kynferðisafbrot gagnvart börnum hafa mikil tilfinningaleg áhrif og vekja skiljanlega óhug almennings. Þetta eru alvarleg mál sem taka verður á af festu og nærgætni við þolendur og við verðum sífellt að vera vakandi fyrir nauðsynlegum umbótum í málsmeðferð.

Hér á landi er byggt á þeirri reglu að sérhver skuli saklaus uns sekt er sönnuð, eins og gert er í öðrum siðuðum ríkjum. Í stjórnarskrá lýðeldisins er skýrlega kveðið á um þetta og sambærilegt ákvæði er einnig að finna í mannréttindasáttmála Evrópu. Sönnun um sekt verður að fara fram í valdbærum dómstólum sem eiga að vera óháðir og sjálfstæðir og mat dómstólanna á að vera endanlegt. Samkvæmt stjórnskipan okkar verður sönnunarmat í einstökum dómsmálum hvorki tekið til endurskoðunar af dómsmrn. né Alþingi.

Einstakir dómar geta verið umdeildir og íslenskir dómstólar eiga vitaskuld ekki að vera yfir gagnrýni hafnir. En sú grundvallarregla að dómstólar skuli vera sjálfstæðir er óumdeild. Hins vegar ítreka ég að um vandasöm mál er að ræða og það er nauðsynlegt að við höldum öll vöku okkar.