Framsal Háskóla Íslands á einkaleyfi til peningahappdrættis

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:31:30 (2551)

1999-12-08 14:31:30# 125. lþ. 39.10 fundur 166. mál: #A framsal Háskóla Íslands á einkaleyfi til peningahappdrættis# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Í landinu eru við lýði lög um Happdrætti Háskóla Íslands frá 1973 og lög um söfnunarkassa. Í 3. mgr. laga um Háskóla Íslands segir að dómsmrh. geti heimilað að notaðar séu sérstakar happdrættisvélar þannig að þátttaka og ákvörðun um greiðslu af honum fari fram vélrænt og samstundis og enn fremur að slíkar happdrættisvélar séu samtengdar, einstakar vélar og á milli sölustaða.

Í lögunum er ekkert að finna um að Háskóli Íslands geti framselt þetta einkaleyfi sitt. Í lista á netinu yfir reglugerðir dómsmrh. sem varða happdrætti er ekki að finna neina reglugerð við lög um Happdrætti Háskóla Íslands, bara um Íslenska getspá, DAS og einstök happdrætti sem einstök félög, t.d. hestamannafélagið Sleipnir, reka.

Samkvæmt símaskránni eru reknar fjórar spilastöðvar undir nafninu Háspenna: Á Laugavegi, í Hafnarstræti, í Kringlunni og á Skólavörðustíg í Reykjavík. Í lista á netinu yfir íslensk fyrirtæki er fyrirtæki undir nafninu Háspenna ekki að finna.

Nú hef ég fyrir því upplýsingar, þó að þær séu ekki fyllilega staðfestar, að Háspenna fái prósentur af veltu spilakassa í eigu Háskóla Íslands. Ef þetta er rétt þá hefur háskólinn framselt fyrirtækinu einkaleyfi sitt til happdrættisrekstrar og þess vegna er hæstv. dómsmrh. spurð: Hvaða eftirlit er haft með því þegar Háskóli Íslands framselur til einkafyrirtækis einkaleyfi sitt til að reka peningahappdrætti?