Frummatsskýrsla um álver á Reyðarfirði

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 14:51:56 (2558)

1999-12-08 14:51:56# 125. lþ. 39.4 fundur 132. mál: #A frummatsskýrsla um álver á Reyðarfirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir við svarinu. Ég átti svo sem ekki von á öðru. En það er mjög mikilvægt þegar spurningum sem þessum er svarað að öllu sé til skila haldið, hinum sögulegu staðreyndum eins og þeirri samtíð sem menn upplifa akkúrat núna þessa stundina og það vildi ég gera í svari mínu hér.

Varðandi ábendingu hv. þm. um starfsleyfið, þá finnst mér það í sjálfu sér vera vel skoðandi, þ.e. að starfsleyfið liggi fyrir á sama tíma og skýrslan um mat á umhverfisáhrifum er til sérstakrar skoðunar. Mér finnst það vera sérstaklega umhugsunarvert í ljósi þess að ég tel að það þurfi að stytta þetta ferli eins og nokkur kostur er, en samt ekki að fórna því sem mikilvægast er, aðgangi almennings og þeirra sem að þurfa að koma. En ég segi: Þetta er ferlið í dag og starfsleyfið sem verður gefið út, vonandi fyrir þetta fyrirtæki sem þarna fer af stað, mun byggja á matinu á umhverfisáhrifum og þeirri skýrslu, m.a. öll viðmið við losun og þar fram eftir götunum sem verða að koma fram í því leyfi. Eins og af frummatsskýrslunni má sjá telur framkvæmdaraðilinn sig, sem verður vonandi þetta fyrirtæki sem við höfum stofnað um álverið, ekki í neinum vandræðum með að standa við öll þau mörk sem fram eru sett í frummatsskýrslunni og rúmlega það og það finnst mér vera sérstakt fagnaðarefni að menn treysti sér til að gera það. Þar af leiðandi munu menn setja mjög strangar og harðar kröfur í starfsleyfið þannig að þar af leiðandi er tryggt að af þessu hljótist eins lítil neikvæð umhverfisáhrif og nokkur kostur er.