Samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:15:28 (2565)

1999-12-08 15:15:28# 125. lþ. 39.6 fundur 177. mál: #A samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svarið sem ég tel afskaplega athyglisvert. Þar kom margt merkilegt fram. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra um að margt gott hefur að sjálfsögðu verið unnið í rannsóknum hér á landi. En betur má ef duga skal.

Ég tel eins og hæstv. ráðherra að starf á borð við það sem unnið er hjá Impru sé afskaplega mikilvægt, fyrst og fremst þar sem það er þverfaglegt. Ég tek jafnframt undir það að líklega er höfuðgallin í rannsóknum, uppbyggingu og framförum hjá okkur fólginn í því hvernig við höfum læst okkur í höfuðatvinnuvegunum, m.a. eins og fram kemur í skiptingu ráðuneyta og ekki síður hagsmunagæslu einstakra stofnana og samtaka. Það er kannski mesti dragbíturinn á framfarir í samfélaginu. Fyrir vikið kunnum við að hafa tapað mörgum sóknarfærum á nýjum sviðum, t.d. í upplýsingatækni og ferðaþjónustu sem hafa í sjálfu sér ekki verið vistaðar á ákveðnum stöðum, m.a. vegna þessara hefðbundnu skiptinga. Þess vegna er mikilvægt að stokka upp núverandi rannsóknarkerfi með nýrri hugsun, þeirri hugsun sem mér fannst hæstv. ráðherra boða hér, þar sem litið er þverfaglega á mál til framtíðar en ekki fortíðar. Ég vara jafnframt við þeirri hættu að rannsóknir kunni að daga uppi inni á stofnunum, séu ekki kynntar og þar af leiðandi sé þeim ekki hrint í framkvæmd. Ég bendi jafnframt á nauðsyn þess að taka á skattamálum til þess að örva framlög einkageirans á sviði rannsókna og nýsköpunar og stuðla þannig að framförum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hraða því sem nú er í vinnslu og hæstv. ráðherra sagði hér frá.