Samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:17:39 (2566)

1999-12-08 15:17:39# 125. lþ. 39.6 fundur 177. mál: #A samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Hjálmari Árnasyni og í sjálfu sér þarf það ekki að koma á óvart. Hins vegar lagði ég áherslu á það í svari mínu hér áðan að ég tel að menn þurfi að taka þetta skref fyrir skref. Ég held að þetta gerist ekki með byltingu. Ég held að menn hafi fært þetta stuðningsumhverfi í rétta átt að undanförnu. Ég bind mjög miklar vonir við það starf sem nú er unnið á vegum Rannís við að vinna málið innan frá varðandi rannsóknastofnanir.

Ég er sannfærður um að tugir milljóna kr. liggja ónýttir í rekstrarumhverfi viðkomandi stofnana. Ég tel að þá fjármuni sem rannsóknastofnanir hafa til ráðstöfunar mætti nýta mun betur með aukinni samvinnu, jafnvel með sameiningu. Peningana sem spöruðust þannig mætti nýta beint í rannsóknarverkefnin sem slík. Þetta hef ég lagt áherslu á síðan 1995. Ég tel að við verðum innan tíðar að stíga skref í þeim efnum. Ég er sannfærður um að það er ekki spurning hvort heldur hvenær þessar breytingar muni eiga sér stað. Þær verða þá leiddar fram af menntmrh. þegar þar að kemur. En alveg er ég viss um að heilu stjórnmálaflokkarnir á Alþingi verða á móti þessu eins og mörgu öðru.