Söfnun lífsýna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:25:02 (2569)

1999-12-08 15:25:02# 125. lþ. 39.13 fundur 191. mál: #A söfnun lífsýna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að fullyrða að af hálfu margra lækna er mjög ágengur málflutningur af því tagi sem ég lýsti hér áðan, gylliboð og nokkuð sem ég vil kalla óbeinar þvinganir. Mér finnst áhyggjuefni að hér skuli upplýst að engar kvartanir hafi borist heilbrrn. eða landlæknisembættinu. Því miður finnst mér það ekki gefa ráðuneytinu eða landlæknisembættinu þá einkunn sem ég vildi að þessar stofnanir hefðu hlotið. Við sem höfum gagnrýnt þetta fyrirkomulag höfum fengið ótal kvartanir inn til okkar. Mér finnst þetta áhyggjuefni fyrir hæstv. heilbrrh. og landlæknisembættið.

Hæstv. ráðherra vísar í lög og reglugerðir. Í fyrirspurn minni og í málflutningi er ég að segja hvað hugsanlega kunni að liggja á milli línanna, hver veruleikinn er. Ég vil vita hvort ráðuneytið og hæstv. ráðherra sé reiðubúinn að beita sér í þessu máli. Staðreyndin er sú að það er verið að lokka fólk til samþykkis eða egna fyrir það gylliboð. Þetta eru staðreyndir.

Þegar hæstv. ráðherra fullyrðir að fólk geti hvenær sem er sagt sig úr þessu þá hefur það iðulega látið af hendi lífsýni sem hafna inni í þessu tiltekna fyrirtæki. Ég upplýsti í fyrri ræðu minni um þetta mál að fyrirtæki hefði reynt að fá lífsýni úr sjúklingum á geðdeild við sjúkrahús á Íslandi. Sem betur fer var því hafnað af hálfu yfirmanna þeirrar stofnunar. Þetta er í gangi. Þetta er að gerast og við verðum að taka það alvarlega.

Ég segi að lokum, herra forseti, að áður en gengið verður frá samningum við Íslenska erfðagreiningu vil ég fá þær upplýsingar sem ég hef spurt um hér á Alþingi um þá samninga sem þegar hafa verið gerðir.