Beinþynning

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:39:55 (2575)

1999-12-08 15:39:55# 125. lþ. 39.12 fundur 180. mál: #A beinþynning# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hér komu fram sem voru að mörgu leyti afar upplýsandi. Jafnframt tel ég að aðrir hv. þingmenn sem hér hafa komið inn í umræðuna hafi lagt mjög gott til þessara mála. Ég held að það skipti verulegu máli, eins og hér hefur komið fram hjá hv. þingmönnum, að forvarnir og upplýsing sé með þeim hætti að fólk viti af þessum vágesti, að fólk viti hvað það getur gert til að koma í veg fyrir að það verði fyrir slysum af völdum beinþynningar.

Það hefur verið talað um beinþynningu sem faraldur 21. aldarinnar og þegar menn tala þannig hljótum við að álykta að fyrst þetta er faraldur næstu aldar þá sé eitthvað í lifnaðarháttum okkar núna og þeirrar kynslóðar sem er að alast upp sem er ekki sem skyldi. Þess vegna eru rannsóknir, upplýsing og forvarnir svo mikilvægar vegna þess að það er fráleitt í rauninni að horfa fram hjá sjúkdómi sem þessum sem er svo alvarlegur sem raun ber vitni og er svo kostnaðarsamur eins og hér kom fram hjá hæstv. ráðherra, ef hvert brot kostar að jafnaði um 1,5 millj. í beinhörðum peningum og við erum jafnvel að tala um þúsund brot á ári.

En ég vil þakka hæstv. ráðherra og ég vænti þess að fyrirspurnin og þau svör og þær upplýsingar sem hér hafa komið fram verði til þess að vekja okkur öll til frekari umhugsunar um þennan heilbrigðisvanda og verði þar með til þess að auka bæði umfjöllun og í framhaldinu forvarnir.