Þolmörk ferðamannastaða á hálendinu

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 15:58:36 (2582)

1999-12-08 15:58:36# 125. lþ. 39.19 fundur 201. mál: #A þolmörk ferðamannastaða á hálendinu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Mikil aukning hefur orðið á fjölda ferðamanna til landsins og ef litið er til erlendra ferðamanna sem koma til landsins, þá hefur fjöldi þeirra tvöfaldast á 12 árum og tífaldast á 35 árum. Eingöngu á árinu 1998 fjölgaði erlendum ferðamönnum um 31 þúsund. Þeir eru núna tæplega 250 þúsund á ári.

Ef litið er til framtíðar í þessu máli, þá hljóta menn að sjá að slík aukning þýðir mikla ánauð á innlendum náttúruperlum og hálendi Íslands og því er mikilvægt að menn athugi hvernig eigi að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland og horfa þá til 20--30 ára. Ég held að mjög mikilvægt sé að breyta áherslum í ferðamannaiðnaðinum á þann veg að hingað komi ferðamenn sem búi dýrar og gefi meira af sér. Þá stefnu eða þróun sem átt hefur sér stað með bændagistingu og annarri gistingu sem er mjög ódýr og gefur þess utan mjög lág laun, þarf að endurskoða og þá alveg sérstaklega með tilliti til þess að hálendið þolir varla miklu fleiri ferðamenn.

Þá kemur inn í þetta mál spurning um vegagerð, brúagerð, flugvallagerð og annað slíkt inn á hálendið. Til að átta sig á þessu er ég með eftirfarandi spurningar til hæstv. samgrh.:

1. Hver er áætlaður árlegur fjöldi erlendra og innlendra ferðamanna inn á hálendið,

a. núna,

b. eftir 10 ár,

c. eftir 25 ár?

2. Þola náttúruperlur landsins meiri umferð gangandi, ríðandi, akandi og fljúgandi ferðamanna en nú er?