Þolmörk ferðamannastaða á hálendinu

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 16:00:52 (2583)

1999-12-08 16:00:52# 125. lþ. 39.19 fundur 201. mál: #A þolmörk ferðamannastaða á hálendinu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 125. lþ.

[16:00]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þær fyrirspurnir sem hann hefur borið upp til mín og vil svara þeim með eftirfarandi hætti.

Fyrst er spurt um hver sé áætlaður fjöldi erlendra og innlendra ferðamanna inn á hálendið eins og nú er, eftir 10 ár og eftir 25 ár. Mjög erfitt er að svara þessari spurningu af nokkurri nákvæmni. Í fyrsta lagi hefur hálendið sem slíkt aldrei verið skilgreint og því álitamál hvaða ferðamannastaðir teljast á hálendinu, á jaðri þess eða utan þess. Í öðru lagi er ekki um neina eiginlega talningu að ræða á fjölda gesta sem heimsækja einstaka staði á landinu, hvort sem er á hálendinu eða utan þess. Eina samræmda talningin er talning gistinátta sem Hagstofan hefur umsjón með. Hagstofan hefur allt til ársins 1997 gefið út tölur um fjölda gistinátta á því sem kallað er miðhálendi. Frá og með árinu 1998 hefur því svæði verið skipt og er nú talið með viðkomandi landshlutum í talningu gistinátta.

Gistinætur gefa eðlilega vísbendingu um fjölda gesta sem dvelja á ákveðnum svæðum en gefa ekki upplýsingar um daggesti. Þróunin virðist vera sú að gistinóttum, til að mynda í Herðubreiðarlindum og Landmannalaugum, fækki en það þarf ekki að þýða færri ferðamenn þar sem bættir vegir og betri gisting á jaðri svæðanna gera ferðafólki kleift að heimsækja þessar náttúruperlur í dagsferðum þó gist sé annars staðar. Að öllu framansögðu er ekki hægt að gefa nákvæmar upplýsingar um fjölda gesta á hálendinu núna en gerðar hafa verið kannanir meðal erlendra ferðamanna og af þeim má ætla að rúmlega 50 þúsund erlendir gestir fari á þetta svæði árlega. Af gistináttatalningunni má ætla að álíka margir einstaklingar heimsæki svæðið.

Varðandi það hvað gerist eftir tíu ár þá vil ég segja að gert hefur verið ráð fyrir að fjölgun erlendra gesta sem hingað koma verði að meðaltali 6--7% á næstu tíu árum. Samhliða er gert ráð fyrir að framhald verði á þeirri þróun að meiri hluti þeirrar aukningar verði utan þess tíma sem hálendisvegir eru opnir. Gangi það eftir og verði hlutfall erlendra gesta sem fara á hálendið hliðstætt því sem nú er, þá eru erlendir gestir þar um 50% fleiri en nú eru að tíu árum liðnum.

Þá er það spurningin um hvað gerist eftir 25 ár. Útilokað er að gera sér grein fyrir því með nokkurri vissu hve margir erlendir eða innlendir ferðamenn heimsækja hálendið eftir 25 ár eða árið 2024. Engar áætlanir liggja fyrir um hvernig uppbyggingu verður hagað með tilliti til ferðaþjónustu á þessu svæði til svo langs tíma litið.

Annar liður fyrirspurnarinnar var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Þola náttúruperlur landsins meiri umferð gangandi, ríðandi, akandi og fljúgandi ferða manna en nú?``

Því er til að svara að lengi hefur verið talað um að með vaxandi ferðalögum Íslendinga um eigið land og auknum fjölda erlendra ferðamanna þá sé hætta á að náttúruperlur beri skaða af því. Við þessu hefur verið brugðist á marga vegu. Lögð hefur verið áhersla á frekari dreifingu ferðamanna yfir árið og nú er svo komið að fleiri erlendir gestir koma á þeim tíma sem aðgengi að fjölda hálendisstaða er takmarkað eða ekkert. Á sama hátt hefur með stórbættum samgöngum verið lögð áhersla á að gera ferðafólki kleift að kynnast nýjum svæðum og minnka þannig álagið á önnur. Byggð hefur verið upp ferðaþjónusta á nýjum svæðum á síðustu árum og álaginu þannig dreift.

Það sem hér hefur verið sagt breytir að sjálfsögðu ekki því að við verðum stöðugt að gæta þess að ofbjóða ekki einstökum náttúruperlum sem draga að fjölda gesta árlega.

Árið 1995 kom út skýrsla á vegum samgrn. um nauðsynlegar úrbætur á fjölförnum ferðamannastöðum. Í framhaldi af því var aukið fjármagn veitt til umræddra úrbóta. Þessir fjármunir hafa verið nýttir víða um land og hefur Ferðamálaráð á þessum áratugi unnið fyrir rúmar 100 millj kr. við úrbætur og fyrirbyggjandi aðgerðir á ferðamannastöðum. Auk þess hafa ýmsar aðrar stofnanir og einstakir aðilar komið að þessu verki. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir að stórauka þetta fjármagn.

Herra forseti. Tímans vegna farið get ég því miður ekki farið nánar út í þetta en gæti bætt ögn við í síðari ræðutíma mínum.